Project SEARCH er 9 mánaða starfsnám sem fer fram á vinnustað sem leggur til húsnæði, verkefni, tengilið og fleira sem þarf til. Kennslan fer fram í „skólastofu“ og í 3 mismunandi deildum fyrirtækis þar sem kennd eru félagsleg færni og vinnufærni sem nýtist nemendum í vegferð sinni út á almennan vinnumarkað.
Áherslur námsins eru á að einstaklingurinn fái vinnu á almennum vinnumarkaði, sé ráðinn beint af fyrirtækinu og fái laun samkvæmt kjarasamningum. Ekki er gert ráð fyrir að fyrirtæki sem ráða til sín fólk sem lýkur náminu nýti sér vinnusamninga, enda séu þeir ekki hluti af eðlilegu ráðningaferli né til þess fallnir að fólk sé metið að verðleikum. Þeir bjóði auk þess upp á fyrirfram efasemdir um að viðkomandi ráði við starfið.
Verkefnið þjónar ungu fólki með þroskahömlun og aðrar fatlanir sem þurfa stuðning til að ná markmiðum sínum á vinnumarkaði.
Námið er ólaunað og fer fram á Landspítala Háskólasjúkrahúsi, í formi fræðslu og starfsþjálfunar.
Project SEARCH á rætur að rekja í Cincinnati, Ohio í Bandaríkjunum. Upphafsmenn þess eru Erin Riehle og Susie Rutkowski, en það var árið 1996 sem Erin hafði samband við Susie til að kanna hvort hún vissi af fötluðu fólki sem hefði áhuga á að vinna á Cincinnati Childrens medical center. Í framhaldi af því þróuðu þær starfsnám sem miðar að því að greiða götur fatlaðs fólks að atvinnuþátttöku á almennum vinnumarkaði. Project SEARCH er ætlað að ögra viðhorfum til vinnuframlags og litlum væntingum til fatlaðs fólks á atvinnumarkaði sem hafa verið lífsseig hingað til. Lögð er áhersla á að skapa mjög jákvæða mynd af fötluðum starfsmönnum sem er áhrifaríkasta leiðin til að breyta viðhorfum til hins betra.
Ef spurningar vakna um verkefnið er velkomið hafa samband í gegnum netfangið ps@styrktarfelag.is
Í janúar 2024 var gefin út heimildamyndin Project SEARCH: Allir með sem hægt er að skoða hér.
Umsóknarfrestur í starfsnám Project SEARCH er til 01.05.2024 fyrir önnina sem verður haust 2024/2025.
Hér er hægt að sækja um í Project SEARCH
Hér fyrir neðan er saga verkefnisins hjá Ási styrktarfélagi rakin