Skip to main content
search
0

Það er flestum mikilvægt að vera á vinnumarkaði. Í stefnu Áss styrktarfélags er gengið út frá því að öll dagþjónusta fullorðinna sé vinna. Áhersla er á jöfn tækifæri, fjölbreytni viðfangsefna og einstaklingsmiðaða þjónustu eftir getu og óskum hvers starfsmanns.

Vinna og virkni fer fram á vinnustöðum félagsins í Stjörnugróf 7-9 og Ögurhvarfi 6. Allir starfsmenn eiga sér fasta dagskrá á sínum vinnustað. Að auki eiga þeir þess kost að velja sér rafrænt allt að fimm vinnu- og virknitilboð tvisvar á ári. Tilboðin eru fjölbreytt og leitast við að bjóða eitthvað við allra hæfi.

Jafnframt er lögð áhersla á að fjölga verkefnum á almennum vinnumarkaði eins og kostur er.

Mikil aðsókn hefur verið í Vinnu og virkni hjá Ási styrktarfélagi og starfa þar nú 240 manns með þeim stuðningi sem hver þeirra þarf.

Allir leiðbeinendur í Vinnu og virkni eru ráðnir óstaðbundið hjá félaginu og geta því fylgt starfsfólki með fötlun þangað sem þeirra er þörf.

Vinna og virkni er unnin samkvæmt þjónustusamningum við sveitarfélög. Núgildandi samningar eru við Árnesþing, Garðabæ, Hafnarfjörð, Kópavog, Mosfellsbæ, Reykjavík og Seltjarnarnes. Athygli er vakin á því að áhugasamir þurfa að sækja um hjá Vinnumálastofnun.

______________________________________________________________________________________________________

Um laun og aðrar greiðslur til fatlaðs starfsfólks í Vinnu og virkni

Stefna Áss styrktarfélags er að tryggja fötluðu fólki vinnu og virkni við hæfi með viðeigandi stuðningi. Fatlað starfsfólk í Vinnu og virkni er fjölbreyttur hópur sem á það sameiginlegt að þurfa stuðning í vinnunni. Sumir einstaklingar þurfa mikinn stuðning og aðrir lítinn. Flestir eru ekki með ráðningarsamning heldur þjónustusamning sem kallast Vinnu- og virknisamningur.

Almennt

Tryggingastofnun greiðir örorkulífeyri til þeirra einstaklinga sem geta ekki unnið fulla vinnu sökum skertrar starfsgetu. Að auki fá þeir greiðslur í formi tekjutryggingar: „Tekjutrygging og aldursviðbót reiknast sjálfkrafa inn hjá örorkulífeyrisþegum ef tekjur eru undir viðmiðunarmörkum.“ Flest fatlað starfsfólk í Vinnu og virkni fær fulla tekjutryggingu.

Starfsfólk sem vinnur við tekjutengd verkefni

Margt fólk vinnur við verkefni sem gefa tekjur. Dæmi um slík verkefni eru pökkun og álímingar fyrir fyrirtæki. Þær tekjur standa undir efniskostnaði og viðhaldi vinnuvéla. Allur hagnaður umfram það greiðist fötluðu starfsfólki sem vinnur þessi verkefni. Upphæðin sem hver og einn fær reiknast út frá vinnustundum við þessi tilteknu störf.

Starfsfólk sem starfar samkvæmt samningi Hlutverks við Eflingu

Hluti starfsfólks starfar við verkefni sem skila meiri tekjum, svo sem framleiðslu klúta á saumastofu. Þeir aðilar fá laun samkvæmt stofnanasamningi aðildarfélaga Hlutverks, samtaka um vinnu og verkþjálfun við Eflingu og skerðist tekjutrygging þeirra í samræmi við reglur Tryggingastofnunar.

Starfsfólk sem starfar samkvæmt kjarasamningi Sameykis

Að auki starfar fatlað fólk sem stuðningsfulltrúar í Vinnu og virkni og fær laun sem slíkir samkvæmt samningum við Sameyki.