Skip to main content
search
0

Bæklingur um þjónandi leiðsögn útgefinn af Ási styrktarfélagi 2023.

__________________________________________________________________________________________________________________

Þjónandi leiðsögn hjá Ási styrktarfélagi 

Þjónandi leiðsögn (e. gentle teaching) hefur á síðustu árum náð mikilli útbreiðslu á Íslandi. Hún var fyrst tekin upp hérlendis á Akureyri snemma á tíunda áratug síðustu aldar og var lengi vel nánast eingöngu notuð á ákveðnum búsetuúrræðum þar í bæ.

Síðustu ár hefur áhugi fyrir henni hinsvegar aukist til muna og nú er svo komið að þjónandi leiðsögn hefur verið formlega innleidd í allar starfsstöðvar í fötlunar- og öldrunargeirunum á Akureyri og innleiðing stendur yfir mjög víða annarsstaðar á landinu t.d. hjá Reykjavíkurborg, Mosfellsbæ, Hafnarfirði, Árborg, Reykjanesbæ, Egilsstöðum, Ási styrktarfélagi og eflaust víðar.

Áhuginn vaknaði á fræðsludegi.

Ás styrktarfélag tók ákvörðun um að innleiða þjónandi leiðsögn á allar sínar starfsstöðvar snemma árs 2017.

Forsaga þess er sú að Kristinn Már Torfason og Arne Friðrik Karlsson höfðu komið með kynningu á þjónandi leiðsögn á sameiginlegan starfs- og fræðsludag fyrir starfsfólk haustið 2014. Í framhaldinu voru tveir starfsmenn hjá félaginu, Hidda Pálsdóttir og Trausti Júlíusson, sendir til Akureyrar vorið 2015 í mentoraþjálfun undir stjórn Kristins Más og Michaels Vincent.

Upp úr áramótum 2017 lagði Trausti fram þá tilllögu við framkvæmdarráð að innleiða þjónandi leiðsögn. Sú tilllaga var studd af mannauðsstjóra, Ernu Einarsdóttur og ýmsum öðrum stjórnendum í Ási. Tillagan var samþykkt í framkvæmdaráði og í framhaldinu af stjórn félagsins. Innleiðing hófst svo formlega þann 24. apríl 2017 þegar fyrsti hópur starfsmanna mætti í innleiðingarfræðslu. Trausti og Mike Vincent sáu um fyrsta innleiðingardaginn. Trausti og Hidda hafa eftir það haldið utan um og skipulagt innleiðingu á þjónandi leiðsögn hjá Ási og séð um fræðslu svo sem fyrir nýliða og mentoraþjálfun.

Af hverju þjónandi leiðsögn?

Ástæðan fyrir innleiðingu þjónandi leiðsagnar hjá félaginu er sú að stjórnendum leist vel á að nota hugmyndafræði sem miðar að því að bæta líf og líðan starfsmanna, bæði fatlaðra og ófatlaðra. Þjónandi leiðsögn byggir á kærleiksríkri nálgun. Hún snýst um að mynda tengsl, skapa öryggi og bæta samskipti. Reynslan af því að nota þjónandi leiðsögn, t.d. á Akureyri, er mjög góð. Þar hefur hún hefur bætt líðan fólks, fækkað atvikum sem tengjast erfiðri hegðun og aukið sjálfstæði fólks og hjálpað því að verða virkari þátttakendur í samfélaginu.

Hvað er þjónandi leiðsögn ?

Eins og áður segir byggir þjónandi leiðsögn á kærleiksríkri nálgun. Þeir sem starfa samkvæmt þjónandi leiðsögn beita ekki hörku, þeir nota ekki umbun og refsingu heldur leggja áherslu á að byggja upp samband við einstaklingana sem þeir eru að vinna fyrir með því að styðja þá og hvetja. Þeir sýna alltaf nærgætni og vinsemd. Ef einhver sýnir slæma hegðun þá er honum ekki refsað, hann er ekki skammaður og honum er ekki hótað. Þeir sem vinna samkvæmt þjónandi leiðsögn mæta alltaf slæmu með góðu.

Þjónandi leiðsögn leggur mikla áherslu á að byggja upp traust hjá þeim einstaklingum sem unnið er með. Til að það traust náist þarf að mynda alvöru tengsl við viðkomandi. Honum er gert það ljóst að umhyggjan fyrir honum sé engum skilyrðum háð. Hann á það ekki á hættu að hún hverfi ef að hann segir eða gerir eitthvað rangt. Hann fær umhyggjuna strax. Það er enginn reynslutími. Þjónandi leiðsögn notast við ákveðin verkfæri í daglegu starfi og snýst um nálgun í samskiptum, en hún fylgir líka ákveðinni grunnhugsun. Þess vegna er talað um hana bæði sem aðferðarfræði og hugmyndafræði.

Mikið starf framundan.

Starfsfólk frá Ási hefur verið duglegt að sækja árlega ráðstefnu Gentle Teaching International, en sem dæmi má nefna að haustið 2019 voru þátttakendur frá Ási á ráðstefnunni í Gent í Belgíu á þriðja tuginn.  Hidda og Trausti kynntu stöðu innleiðingar hjá Ási styrktarfélagi á GTI ráðstefnunni í Vancouver árið 2017.

Allir nýjir starfsmenn fá fræðslu um þjónandi leiðsögn sem hluta af nýliðafræðslu. Auk þess hafa verið haldnir fyrirlestrar um þjónandi leiðsögn á starfsmannafundum, þar á meðal fengu fatlaðir starfsmenn kynningu á auðskildu máli. Haustið 2019 höfðu 100 manns fengið þriggja daga innleiðingarfræðslu hjá félaginu. Fyrsti mentorahópurinn (18 manns) útskrifast vorið 2020.

Þjónandi leiðsögn hefur þegar bætt líðan og starfsumhverfi margra þeirra sem eru í þjónustu hjá Ási styrktarfélagi, en betur má ef duga skal. Framundan er áframhaldandi fræðslustarf og er markmiðið að allir fastir starfsmenn fái innleiðingarfræðslu og að menntaðir verði einn til tveir mentorar til að starfa á hverri starfsstöð. Mentorarnir munu taka að sér hluta af þeirri fræðslu og hvatningu sem er nauðsynleg til þess að halda starfsfólki meðvituðu um að vinna samkvæmt þjónandi leiðsögn.

Trausti Júlíusson, apríl 2020.


Þjónandi leiðsögn þemadagar og mentorfræðsla hjá félaginu.

Í apríl 2024 voru þjónandi leiðsögn þemadagar haldnir öðru sinni á starfsstöðum Áss styrktarfélags. Dagarnir eru notaðir til þess að minna á aðferðir og hugmyndafræði þjónandi leiðsagnar, en Ás styrktarfélag hefur notast við þjónandi leiðsögn síðan 2017.

Á þemadögunum voru afjhjúpuð ný veggspjöld með verkfærum þjónandi leiðsagnar í Ási vinnustofu, Bjarkarási og Lækjarási. Við ræddum sérstaklega eina af grunnstoðum hugmyndafræðinnar, þátttöku. Það var sett upp þátttökutré þar sem starfsfólk og leiðbeinendur gátu hengt eitthvað fallegt. Það er mikilvægt að vera þátttakandi á tímum þegar einmannakend og einangrun eru á meðal helstu meina samfélagsins.

Á þjónandi leiðsögn dögunum voru bæði þjónandi leiðsögn krossgáta og þjónandi leiðsögn bingó og skipulagður var barnamyndaleikur. Allir sem vildi komu með mynd af sér frá æsku og svo var safnast saman og giskað á hver var á myndunum og sá fékk tækifæri til þess að segja frá þeim tíma sem myndin tekin. Eitt af því sem við gerum með þjónandi leiðsögn er að skapa nýjar minningar og hugmyndin með barnamyndaleiknum var að nota gamlar minningar til þess að búa til nýjar.

Þjónandi leiðsögn dagarnir tókust mjög vel. Þeir einkenndust af gleði og samveru. Þemadagarnir voru skipulagðir af þjónandi leiðsögn mentorahóp Áss styrktarfélags. Nú er í gangi átak til þess að fjölga mentorum hjá félaginu, en nýtt mentoranámskeið hefst í apríl 2024.

Trausti Júlíusson, apríl 2024.