Skip to main content
search
0

 

Mannauðsstefna 2022-2027

Stefna Áss styrktarfélags er að hlúa vel að mannauði sínum. Mikilvægt er að hafa ætíð á að skipa hæfum og áhugasömum starfsmönnum og búa í haginn fyrir þá svo hæfileikar, frumkvæði og dugnaður hvers og eins fái notið sín. Starfsaðstæður séu á þann veg að starfsmenn njóti þeirra og þeim líði vel. Mikilvægt er að fólk geti samhæft vinnu og þarfir fjölskyldu til hagsældar fyrir alla aðila.

Jafnrétti
Ás styrktarfélag hefur fengið vottun á jafnlaunakerfi sitt samkvæmt ÍST 85:2012. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Æðstu stjórnendur skuldbinda sig til að setja Ási jafnlaunamarkmið og vinna að stöðugum umbótum.

Jafnréttisáætlun
Miðað er að því að gera félagið að vinnustað þar sem lögð er áhersla á jafnrétti og vellíðan í starfi. Tilgangur jafnréttisáætlunar er að tryggja að stjórnendur og starfsfólk sé meðvitað um mikilvægi jafnréttis í daglegum störfum, í stefnumótun og allri ákvarðanatöku. Samkvæmt lögum nr. 86/2018 skulu allir starfsmenn fá jafna meðferð óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu.

Jafnlaunastefna
Markmið jafnlaunastefnu er að allir starfsmenn njóti jafnra launa og kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að enginn ómálefnalegur launamunur sé til staðar. Jafnlaunastefna á sömuleiðis að tryggja að allir hafi jöfn tækifæri til að nýta hæfileika sína og krafta í starfi, óháð kyni.

Jafnlaunastefna og Jafnréttisáætlun Áss styrktarfélags eru aðgengilegar á heimasíðu félagsins og kynnt öllu starfsfólki.

Fræðsla
Fræðsla er hluti af mannauðsstefnu og mikilvægt er að starfsfólk hafi aðgang að sí – og endurmenntun. Skipulögð fræðsla er hluti af starfsþróun starfsmanna. Góð þjónusta einkennist af vönduðum vinnubrögðum, jákvæðum viðhorfum, færni starfsmanna og þekkingu, Með fræðslu og menntun tileinkar fólk sér nýjungar og verður gagnrýnni á eigin viðhorf og vinnu.

Fræðslunefnd er starfandi hjá félaginu og þar sitja fulltrúar starfsfólks. Fræðsluáætlun er lögð fram á hverju ári. Hún er aðgengileg á heimasíðu félagsins og kynnt öllu starfsfólki.

Öryggi og vinnuvernd
Í starfseminni er lögð áhersla á vinnuverndarstarf sem felur í sér forvarnir varðandi alla þá áhættuþætti sem unnt er að koma auga á s.s. á sviði eldvarna, vinnuslysa, eineltis, ofbeldis, kynferðislegs og kynbundins ofbeldis. Áhersla er lögð á reglubundna fræðslu um framangreind atriði til að sjá til þess að starfsmenn séu meðvitaðir um öryggi við dagleg störf. Annað hvert ár er framkvæmt áhættumat til að koma auga á nauðsynlegar úrbætur er varða öryggi starfsfólks.

Lögð er áhersla á að skapa vinnuumhverfi með nauðsynlegum hjálpartækjum og búnaði sem er í góðu ástandi og uppfyllir öryggiskröfur.

Starfsfólk fær fræðslu og leiðbeiningar varðandi líkamsbeitingu og notkun hjálpar- og stoðtækja.

Undir mannauðsstefnu falla Viðverustefna, Heilsustefna, Áfallaáætlun, Vinnuverndarstarf, Góðir starfshættir og Aðgerðaráætlun gegn einelti, áreitni og ofbeldi.

Þessar stefnur og upplýsingar eru aðgengilegar öllum á heimasíðu Áss styrktarfélags.

 

Samþykkt af stjórn 15.03.2022