Skip to main content
search
0

Stafræn sögugerð er aðferð þar sem leitast er við að valdefla einstaklinga með því að fá þá til að deila sögu sinni. Vorið 2017 fóru tveir einstaklingar með þroskahömlun á vinnustofu í stafrænni sagnagerð sem haldin var á Ítalíu. Markmið vinnustofunnar var að athuga hvernig stafrænar sögur gætu nýst í starfi með fólki með þroskahömlun.

Digital storytelling – empowerment through cultural integration eða DigiPower er samevrópskt verkefni á vegum Erasmus+ og er umsjónaraðili verkefnisins hér á Íslandi ReykjavíkurAkademían (RA). Erasmus+ var sett á stofn af Evrópusambandinu í þeim tilgangi að styrkja og nútímavæða menntun, æskulýðs- og íþróttastarfsemi Evrópulandanna og veitir styrki til verkefna á þeim sviðum (Erasmus+, e.d.). RA er félag sjálfstætt starfandi fræðimanna sem var stofnað1997 og hefur það að markmiði að stuðla að sjálfstæðum rannsóknum á sviði menningar, hug- og félagsvísinda (ReykjavíkurAkademían, e.d.).

Eitt af markmiðum samstarfsverkefnisins var að athuga hvernig aðlaga megi aðferðafræði stafrænna sagna til þess að nota hana í starfi með fólki með þroskahömlun. Haldin var stór alþjóðleg vinnustofa (e. workshop) í bænum Pordenone á Ítalíu. Alls tóku sex Evrópulönd þátt í verkefninu: Danmörk, Finnland, Ísland, Ítalía, Litháen og Slóvenía.

DigiPower byggist á hugmyndafræði Joe Lambert og félaga um stafræna sögugerð (e.digital storytelling) sem snýst um að stuðla að valdeflingu (e. empowerment) þeirra sem fá færri tækifæri í lífinu með því að hjálpa þeim að koma rödd sinni á framfæri.

Hugmyndafræðin á rætur að rekja til umbyltinga í listasamfélagi Bandaríkjanna á áttunda áratug liðinnar aldar. Listsköpun átti ekki lengur að vera einungis fyrir ákveðna elítu heldur ætti hún að vera aðgengileg öllum óháð hæfileika eða færni. Örar tækniframfarir gerðu það að verkum að fólk með litla sem enga reynslu gat auðveldlega komið rödd sinni á framfæri í mynd- og hljóðrænu formi. Með tímanum fóru að myndast formlegir hópar sem tóku að vinna út frá þessum hugmyndum.

Árið 1994 stofnuðu Joe Lambert, Dana Atchley og Nina Mullen San Francisco Digital Media Center þar sem þau þróuðu þá formlegu tækni sem nú kallast stafræn sögugerð. Árið 1998 fluttist stofnunin svo í Berkley-háskóla og varð að Center for Digital Storytelling, og nú einfaldlega StoryCenter. Stofnunin hefur unnið með fjölda samtaka um allan heim og þjálfað þúsundir leiðbeinenda (StoryCenter, e.d.).

Stafrænar sögur eru í formi stuttra myndbanda (1–3 mínútur) þar sem þátttakandinn les upp eigin frásögn og eru myndir, myndskeið, tónlist og hljóð, notuð til að styðja við frásögnina. Stafrænar sögur veita þannig einstaklingum tækifæri til að deila persónulegri reynslu með öðrum á aðgengilegan hátt á stafrænu formi. Saga einstaklingsins er höfð í fyrirrúmi og áhersla er á að formið yfirtaki ekki söguna sjálfa. Efni sagnanna er algjörlega undir þátttakendunum komið, einu skilyrðin eru þau að það komi frá þeim sjálfum
og snerti þau persónulega. Stafræn sögugerð fer yfirleitt fram sem þriggja daga vinnustofa þar sem aðilar, reyndir í sögugerð, leiðbeina þátttakendum í gegnum sköpunarferlið. Ferlið byrjar á söguhring (e. story circle) þar sem þátttakendur varpa fram hugmyndum að sögum og fá endursögn og álit annarra þátttakenda. Þegar viðfangsefni hefur verið ákveðið tekur við handritsgerð. Þátttakandinn hljóðritar svo handritið með eigin lestri og hljóðritunin verður svo grunnstoðin í sögunni. Næst tekur við gagnaöflun þar sem þátttakandinn finnur til myndir, myndbrot, tónlist og hljóðbrot til þess að styðja frásögn sína. Að því loknu er þátttakandinn tilbúinn til að klippa allt efnið saman í myndbandsvinnsluforriti. Lokaskrefið er svo að vista fullbúna sögu og deila henni með öðrum.

Það var snemma árs 2017 að RA hafði samband við Ás styrktarfélag varðandi aðkomu styrktarfélagsins að DigiPower verkefninu. Því næst var haldinn fundur þar sem verkefnið var kynnt fyrir fulltrúum Áss styrktarfélags og öðrum hugsanlegum samstarfsfélögum. Eftir kynningarfundinn var ákveðið að Ás Brynjar Hans Lúðvíksson, sálfræðingur og þroskaþjálfanemi og Heba Bogadóttir, þroskaþjálfi styrktarfélagsins gengi til samstarfs við RA. Eðli þessa verkefnis kallaði á að þjálfa þyrfti fylgdarmenn sem þekktu til þátttakendanna, getu þeirra, tjáningarmáta o.s.frv. Tveir þjónustunotendur og tveir fylgdarmenn frá styrktarfélaginu myndu því taka þátt í verkefninu. Það kom síðan í hlut okkar greinarhöfunda að fylgja þátttakendunum til Pordenone.

Til undirbúnings vinnustofunnar á Ítalíu stóð RA fyrir þriggja daga vinnustofu fyrir fylgdarmenn. Þar kynntumst við ferlinu við gerð stafrænna sagna og útbjuggum okkar eigin. Við byrjuðum á því að gera nokkrar skapandi æfingar til að kalla fram minningar og hugmyndir að sögu. Við vorum t.d. beðin um að teikna æskuheimili okkar og segja svo frá myndinni. Þetta kallaði fram áhugaverðar minningar hjá flestum. Næsta skref var að velja sér sögu til að deila og útbúa handritið. Sögurnar eiga að vera stuttar og aðgengilegar og gat því verið erfitt að hafa handritið nógu stutt og skýrt án þess að sleppa neinu mikilvægu. Að handritagerð lokinni lásum við sögurnar upp fyrir hvort annað og fengum að heyra viðbrögð hvors annars. Þegar handrit okkar var fullbúið hljóðrituðum við það til að nota sem hljóðrás í sögunni. Eftir það tók við gagnaöflun þar sem við þurftum að finna myndir, myndbönd, tónlist, hljóð og fleira til að styðja við söguna. Mikilvægt var að allt efnið væri okkar eigið eða a.m.k. notað með leyfi rétthafa. Þegar öll gögn voru loks komin saman tók við myndbandsvinnslan þar sem sagan varð til með því að skeyta myndum og myndbrotum við upplestur okkar. Lokaskrefið var svo að deila fullbúinni sögu með öllum þátttakendunum og leiðbeinendunum en það er þó valfrjálst. Sem frekari undirbúning að verkefninu sóttum við opinn fyrirlestur Joe Lambert í Háskóla Íslands um „aðferðir stafrænna sagna í víðu og pólitísku samhengi“. Auk þess hitti Joe Lambert okkur greinarhöfunda sérstaklega til að fara yfir notkun aðferðarinnar út frá fötlunarfræðilegu sjónarhorni með tilliti til siðferðilegra atriða.

Joe Lambert er frumkvöðull í aðferð stafrænna sagna og býr að 20 ára reynslu við að halda vinnustofur með ólíkum hópum fólks. Við val á þátttakendum í vinnu eins og þessari þurfti að hafa í huga að aðilar ættu auðvelt með að ferðast langar vegalengdir, nytu sín í stórum hópi, væru með tengingu við aðstoðarmenn og að sjálfsögðu að áhugi væri til staðar hjá viðkomandi að taka þátt í verkefni sem þessu. Þar sem tilgangur verkefnisins var að meta hvernig laga mætti aðferðafræðina að mismunandi þörfum fólks var ákveðið að reyna að finna tvo þátttakendur sem notuðu ólíkar tjáskiptaleiðir. Áskorunin var svo að finna leiðir til að aðlaga ferlið sértækum þörfum þátttakendanna án þess að kjarni eða eðli verkefnisins glataðist.

Með áðurnefnd atriði í huga var ákveðið að bjóða þeim Birnu Rós Snorradóttur og Hilmari Jónssyni að taka þátt í vinnustofunni á Ítalíu í maí 2017. Með okkur í för voru einnig þau Salvör Aradóttir og Ólafur Hrafn Júlíusson frá RA. Allur kostnaður vegna ferða og uppihalds þátttakenda og fylgdarfólks var greiddur af RA og Erasmus+. Hilmar og Birna Rós fengu góða kynningu á verkefninu sem fram undan var og fengu meðal annars að sjá stafrænar sögur sem greinarhöfundar höfðu búið til um sjálfa sig á vinnustofunni í mars.

Stóra stundin rann svo upp að kvöldi laugardagsins 20. maí 2017 þegar hópurinn lagði af stað til Ítalíu. Flogið var til Kaupmannahafnar og þaðan áfram til Feneyja. Frá Feneyjaflugvelli var síðan haldið í rútu til bæjarins Pordenone. Það var síðan eftir hádegi sunnudaginn 21. maí að hópurinn kom á hótelið sitt.

Vinnustofan hófst daginn eftir í húsnæði ANFFAS Onlus di Pordenone en ANFFAS eru ítölsk samtök fjölskyldna fólks með þroskaskerðingu. ANFFAS var stofnað af foreldrum fatlaðra barna og hefur unnið að málefnum fatlaðs fólks frá árinu 1968. ANFFAS sér meðal annars bæði um dagþjónustu og búsetu (ANFFAS, e.d.). Þar hittum við þátttakendur frá hinum fimm þátttökulöndunum. Síðan tók við fimm daga vinnustofa með þessum skemmtilega hópi. Fyrsti vinnudagurinn var helgaður því að kynnast hvert öðru og lyfta hugmyndum á flug. Hópurinn var hristur saman með fjölbreyttum leikjum sem allir gátu tekið þátt í á sinn hátt þrátt fyrir mismunandi getu og færni og ólík móðurmál. Þátttakendur komu síðan fram og kynntu sig og sín helstu áhugamál. Næsta dag hófst hin eiginlega stafræna sögugerð. Öllu verkferlinu var skipt niður í sjö skref, minningavinna, handritsskrif, hljóðupptaka, gagnaöflun, klipping, fínpússun og að lokum sýning. Framgangur þessara skrefa var síðan samviskusamlega skráður niður jafnóðum og þeim lauk. Fyrsta skrefið var að ákveða viðfangsefni og skrifa út frá því handrit. Þar þarf að koma fram einhvers konar persónuleg minning, saga eða upplifun. Til þess að geta kallað fram þessar minningar og upplifanir var farið í ýmiss konar leiki, teiknaðar myndir og ljósmyndir skoðaðar. Áhugamál þátttakenda léku einnig stór hlutverk við gerð handritsins.

Hugmynd að handriti Birnu Rósar kviknaði þegar hún kynnti sig og sagði frá áhugamálum sínum í upphafi vinnustofunnar. Birna gat auðveldlega komið því sem hún vildi segja frá í sögu sinni á framfæri. Við handritsgerðina studdist Birna Rós við ljósmyndir sem hún var með í spjaldtölvu sinni. Þegar handrit Birnu Rósar var í höfn hófst vinna við að setja inn hljóðupptöku af frásögn hennar. Aðstoðarmaður Birnu Rósar las upp eina setningu í einu
sem Birna Rós síðan endurtók. Upplestur aðstoðarmannsins var síðan klipptur út svo aðeins rödd Birnu Rósar heyrðist á upptökunni. Eftir að gengið hafði verið frá hljóði sögunnar hófst
myndvinnslan. Birna Rós notaði ljósmyndir af spjaldtölvu sinni og myndir frá vinum og ættingjum til að styðja við söguna sína. Að þessu loknu byrjuðum við Birna að setja saman ljósmyndirnar við hljóðupptökuna. Stafræna sagan var svo textuð á ensku þar sem frásögn Birnu var öll á íslensku. Öll þessi vinna var unnin á spjaldtölvu Birnu Rósar.

Hilmar tjáir sig lítið munnlega fyrir utan „já“ og „nei“ en notar hins vegar tákn og bendingar. Til þess að fá söguna hans Hilmars tókum við viðtal við hann þar sem hann svaraði spurningum okkar með „já“ eða „nei“ og þrengdi þannig inn á það svið sem hann vildi fjalla um. Hilmar var einnig með spjaldtölvuna sína við höndina og sýndi hann okkur myndir og myndskeið til að leiða okkur áfram. Þegar sagan hans Hilmars var komin fram í grófu formi byrjuðum við að skrifa handritið. Við aðstoðarmennirnir skrifuðum eina setningu í einu og Hilmar lét vita með „já“ eða „nei“ hvort hann væri ánægður með hana. Þannig unnum við handritið setningu fyrir setningu, uppkast fyrir uppkast þar til Hilmar var orðinn ánægður með innihald og framsetningu handritsins. Þar sem Hilmar gat ekki lesið upp handrit sitt sjálfur féllst hann á að Brynjar læsi það upp fyrir sig. Í upptökunni sátu Hilmar og Brynjar saman og á meðan Brynjar las handritið gaf Hilmar til kynna samþykki sitt með því að segja „já“ og hlæja inn á milli. Við gagnaöflun nýttum við okkur spjaldtölvu Hilmars og valdi hann þaðan myndir og myndskeið sem hæfðu sögunni. Þar að auki teiknaði Hilmar myndir af sjálfum sér í leik og starfi. Efnið var svo allt klippt saman í spjaldtölvu Hilmars með því að hlusta á hljóðupptökuna og spyrja Hilmar hvaða mynd eða myndbrot hann vildi hafa við hvern hluta. Að lokum textaði aðstoðarmaður söguna yfir á ensku svo að sem flestir gætu skilið hana.

Sýningar á afrakstri vinnustofunnar fór svo fram síðasta daginn. Þar sýndu allir þátttakendur sína persónulegu stafrænu sögu. Allir fengu blöð með táknum á sem þeir gátu notað í lok hverrar sögu til að sýna viðbrögð sín við henni (gleði, sorg, fyndið, hjartnæmt o.s.frv.). Að vinnustofu lokinni fengu svo allir þátttakendur viðurkenningarskjal til staðfestingar á þátttöku sinni. Auk þess að læra margt kynntust þátttakendur vel og tengdust sterkum vinaböndum sem enn eru til staðar. Hópurinn kom svo heim til Íslands, glaður, reynslunni ríkari og fullur af eldmóði.

Ýmis siðferðileg atriði koma upp við gerð og sýningu stafrænna sagna fólks. Þátttakandi þarf að hafa fulla stjórn á innihaldi sögunnar og er hann jafnframt eigandi hennar. Alltaf skal liggja fyrir skriflegt samþykki og hefur þátttakandi heimild til að draga samþykki sitt til baka hvenær sem er. Ganga þarf úr skugga um að ekki séu birtar viðkvæmar upplýsingar sem skaðað gætu þátttakandann eða þriðja aðila. Gæta þarf einnig að eignar- og höfundarrétti við notkun efnis. Ganga þarf þannig frá stafrænu sögunni að hún sé vistuð á öruggum stað og að vinnugögn og annað efni sem notað var við gerð sögunnar sé ekki aðgengilegt óviðkomandi fólki. Þátttakandinn er eigandi sögunnar og öðrum því óheimilt að nýta sér hana í hagnaðarskyni. Hafa þarf í huga að sýning sögunnar gæti hugsanlega vakið upp óþægilegar minningar
og tilfinningar hjá þátttakandanum. Í því tilviki verður að vera til staðar fagfólk sem getur aðstoðað hann við að takast á við þessar aðstæður. Ákveðin atriði þarf sérstaklega að hafa í huga þegar unnið er með fólki sem þarfnast mikillar aðstoðar við sögugerðina.

Algjört grundvallaratriði er að fullt traust sé á milli þátttakanda og aðstoðarmanns og að aðstoðarmaðurinn þekki vel til þátttakandans og aðstæðna hans. Mikilvægt er að aðstoðarmaðurinn gerir sér grein fyrir því að sagan er verk þátttakandans og hann verður að
gæta sín á að hans eigin viðhorf endurspeglist ekki í lokaafurðinni. Einnig er mikilvægt að þátttakendur upplifi sig sem gerendur og þarf aðstoðarmaðurinn því að gefa þátttakanda frjálsar hendur og virða sköpunargáfu hans. Aðstoðarmaðurinn þarf síðan að gæta
þess að halda góðum tengslum við þátttakandann þó að vinnu við stafrænu söguna sé lokið. Að taka þátt í þessari vinnustofu veitti okkur öllum mikla gleði og kom okkur á óvart hversu auðveldlega vinnan gekk. Allur nauðsynlegur hugbúnaður var mjög notendavænn og hægt að nálgast hann auðveldlega. Það var ekki síst með tilkomu spjaldtölvunnar að möguleikar fólks til tjáningar og að fylgjast  með því sem gerist í þjóðfélaginu hafa aukist og einfaldast. Eftir að ljósmyndir urðu stafrænar og aðgengi að þeim auðveldara á fólk mun léttar með það en áður að segja frá sér og sínum. Hér sannast að myndir segja meira en þúsund orð. Bæði þátttakendur og aðstoðarmenn höfðu mjög jákvæða reynslu af vinnustofunni
og sögugerðinni.

Birnu Rós og Hilmari fannst báðum spennandi og áhugavert að fá að deila eigin reynslu með öðrum og að fá að heyra frásagnir annarra. Það er mat greinarhöfunda að hér sé öflug aðferð sem nota má til að hjálpa fólki með ólíkan tjáningarmáta til að tjá sig og segja sögu sína. Það að Hilmar gat sagt sögu sína með hjálp aðstoðarmanns bendir til þess að aðferð stafrænna sagna einskorðist ekki aðeins við aðila sem notast við hefðbundið talmál heldur sé hægt að sveigja hana að ólíkum tjáskiptaleiðum. Áhugavert væri að sjá hvernig aðferðin nýtist í starfi með fólki sem notast við aðrar óhefðbundnar tjáskiptaleiðir á borð við tákn með tali, Bliss eða PCS samskiptatáknmyndir. Mikill áhugi er á frekara samstarfi við RA og að setja af stað verkefni innan Áss styrktarfélags um frekari innleiðingu.

Heimildir

ANFFAS. (e.d.). LʼAssociazione.

Erasmus+. (e.d.). About Erasmus+.

ReykjavíkurAkademían. (e.d.). Hvað er RA?

StoryCenter. (e.d.). Our story.

 

Grein birt í Þroskaþjálfinn – tímarit þroskaþjálfafélags Íslands, 1.tbl. 19. árg. 2019

Höfundar: Brynjar Hans Lúðvíksson og Heba Bogadóttir.