Skip to main content
search
0

Gróðurhúsið er staðsett neðan við Bjarkarás í Stjörnugróf 9.

Þar fer fram lífræn ræktun með vottun frá Vottunarstöðinni Tún. Í gróðurhúsinu er leitast er við að sníða vinnuaðstöðu að þörfum hvers og eins við ræktun grænmetis og matjurta. Meginstarfsemi er jarðvegsvinna, sáning, umpottun, vökvun, pökkun og annað tengt ræktuninni. Einnig er ýmiskonar útivinna s.s. umhirða og viðhald safnhauga, gróðursetning og umhirða útigrænmetis og uppskeruvinna. Starfsemi er í gróðurhúsinu 10 mánuði ársins, aðeins er lokað yfir háveturinn.

Gróðurhúsið var byggt árið 1991, hefur verið starfrækt frá 1993 og lífræn vottun frá Túni frá árinu 1996.

Í lífrænni ræktun eru afurðir ræktaðar í sátt við umhverfið. Farið er eftir ströngum alþjóðlegum reglum sem gilda um lífræna ræktun og eftirlitsaðilar sjá um að votta framleiðsluna. Hérlendis sér vottunarstofan Tún um slíka vottun. Enginn tilbúinn áburður er notaður. Í staðinn er notast við hrossaskít, þörungamjöl, Glæði og annan lífrænt vottaðan áburð sem er að mestu unninn úr gerjuðum sykurreyr og vínberjahrati. Engin eiturefni eru notuð né önnur tilbúin varnarefni heldur notum við lífræna sápu og lífrænar varnir, t.d. ránvespur. Allt sem til fellur í stöðinni fer í safnhauginn sem verður að dýrindis mold sem er svo notuð við ræktunina. Við notum sáðskipti þar sem plöntur eru ekki ræktaðar á sama svæði í 3-4 ár en það minnkar líkurnar á sjúkdómum og jarðvegsþreytu. Við hvílum einnig ræktunarsvæði í ár og sáum baunum, ertum eða byggi sem eru jarðvegsbætandi. Við verslum lífræn fræ frá íslenskum birgjum og erlendum bönkum og notum hvorki erfðabreytta plöntur né fræ af þeim. Lífrænt grænmeti þykir bragðbetra og hollara, bæði fyrir okkur og móður náttúru.

Við ræktum agúrkur, tómata, paprikur, chili og inn á milli kúrbít, eggaldin, melónur og baunir. Á útisvæði ræktum við gulrætur, hnúðkál, fennel, sellerí, grænkál, hvítkál, gulrófur, pak choi kál, rauðrófur, lauk, salat og kryddjurtir.

Vörur frá gróðurhúsinu eru seldar í áskrift og í Brauðhúsinu, Fjarðarkaupum og Melabúð.

Garðyrkjufræðingur félagsins er Sigríður Svava Rafnsdóttir – netfang grodurhus@styrktarfelag.is – sími 414-0550