Skip to main content
search
0

Vinna og virkni í Ögurhvarfi 6

 

Í Ási vinnustofu er lögð áhersla á að skapa  fólki með skerta starfsgetu vinnuaðstöðu sem sniðin er að þörfum þess og getu. Áhersla er lögð á að efla sjálfsöryggi einstaklingsins og starfshæfni með það að markmiði að starfa á almennum vinnumarkaði. Jafnframt er leitast við að gera vinnu aðgengilega hverjum og einum með það að leiðarljósi að „enginn geti allt en allir geti eitthvað“. Þeir sem starfa í Ási vinnustofu hafa tækifæri til að velja virknihópa í Vinnu og virkni ár hvert.

Á svæði 1 er starfrækt saumastofa þar sem framleiddar eru ýmsar gerðir heimilisklúta, ásamt hárklæðum, handklæðum, bleium og gömlu góðu diskaþurrkunum. Í textílhluta saumastofunnar er boðið upp á vefnað, þæfingu og ýmiskonar skapandi starf.

Á svæði 2 er boðið upp á fjölbreytt skapandi starf en þar er til húsa kertagerð og smiðja. Í smiðjunni er unnið í leir, skartgripagerð, mósaík, við saumaskap og ýmislegt fleira. Svæði 2 sinnir einnig störfum er snúa að þvotti í húsinu og einnig er unnið við pökkunar-og æfingaverkefni.

Svæði 3 sinnir fyrst og fremst pökkunarvinnu fyrir margvísleg fyrirtæki. Má þar nefna pökkun tímarita og dagatala, líma límmiða á lok og dósir, telja skrúfur í poka, líma miða fyrir dreifingaraðila og margt fleira.

Smíkó er smíðaverkstæði fyrir einhverfa einstaklinga sem hefur verið starfandi frá árinu 2010. Smíkó hét áður Shækó (Smíðar og hæfingar Kópavogs) en árið 2012 urðu áherslurnar meira tengdar smíðaverkefnum og nafninu breytt í kjölfarið. Starfsemin var fyrst í Hæfingarstöðunni Fannborg en frá hausti 2017 í Ögurhvarfi 6. Á alþjóðadegi fatlaðra í desember 2019 flutti Smíkó í viðbyggingu við Ögurhvarf í nýja og enn betri aðstöðu. Helstu verkefni Smíkó eru að smíða leikföng á borð við bíla, lestar og kubba. Í Smíkó er einnig unnið við hin ýmsu æfingaverkefni. Starfsmenn Smíkó hafa síðustu ár fengið tækifæri til að fara út á vinnumarkaðinn og vinna þar hin ýmsu störf, stór sem smá.

Ás vinnustofa hóf starfsemi sína þann 22. október 1981. Í upphafi var Ás til húsa í Lækjarási við Stjörnugróf í 150 fermetrum. Vinnustofan hefur starfað á nokkrum stöðum í gegnum árin en í október 2016 komst hún í ný og glæsileg húsakynni í Ögurhvarfi 6, Kópavogi.

Halldóra Þ. Jónsdóttir forstöðumaður hallaj@styrktarfelag.is

Halldóra Kolka Ísberg, yfirþroskaþjálfi halldorakolka@styrktarfelag.is

Ás vinnustofa er opin alla virka daga frá kl. 8.00 – 16.30.

Ás vinnustofa: Ögurhvarf 6

Kt. 461081-0109

Sími: 414 0500

asvin@styrktarfelag.is

IMG 8165