Skip to main content
search
0

Stafræn sögugerð (e.Digital storytelling – empowerment through cultural integration) eða DigiPower er samevrópskt verkefni á vegum Erasmus+ og er umsjónaraðili verkefnisins hér á Íslandi Reykjavíkur Akademían (RA).

Árið 2017 hafði Reykjavíkur Akademían samband við Ás styrktarfélag og bauð því að taka þátt í verkefninu. Vorið 2017 fóru tveir einstaklingar með þroskahömlun ásamt tveimur aðstoðarmönnum á vinnustofu í stafrænni sagnagerð sem haldin var á Ítalíu. Markmið vinnustofunnar var að athuga hvernig stafrænar sögur gætu nýst í starfi með fólki með þroskahömlun. Talið var að verkefnið myndi nýtast vel í starfi innan félagsins og félli vel undir markmið vinnu & virkni hjá félaginu.

DigiPower byggir á hugmyndafræði Joe Lambert og félaga um stafræna sögugerð (e.digital storytelling) sem snýst um að stuðla að valdeflingu (e.empowerment) þeirra sem fá færri tækifæri í lífinu með því að hjálpa þeim að koma rödd sinni á framfæri.

Stafrænar sögur eru í formi stuttra myndbanda (1-3 mínútur) þar sem þátttakandinn les upp eigin frásögn og eru myndir, myndskeið, tónlist og hljóð notuð til að styðja við frásögnina. Stafrænar sögur veita þannig einstaklingum tækifæri til að deila persónulegum upplifunum með öðrum á aðgengilegan hátt á stafrænu formi.

Eitt af markmiðum samstarfsverkefnisins var að athuga hvernig aðlaga megi aðferðarfræði stafrænna sagna til þess að nota hana í starfi með fólki með þroskahömlun. Haldin var stór alþjóðleg vinnustofa í bænum Pordenone á Ítalíu. Alls tóku sjö Evrópulönd þátt í verkefninu: Danmörk, Finnland, Ísland, Ítalía, Litháen, Slóvenía og Tyrkland.

Árið 2019 fór aftur af stað samstarf milli Reykjavíkur Akademíunnar og Áss um samevrópskt verkefni á vegum Erasmus+. Verkefnið er unnið í framhaldi af því fyrra og ber heitið Stafræn sögurgerð til valdeflingar fyrir fólk með fötlun (e. Digital Storytelling for up-skilling and empowerment of learners with intellectual disabilities) eða DigistorID.

Aðalmarkmið þessa verkefnisins er að þróa nýja námsaðferð með því að aðlaga aðferð stafrænna frásagna að þörfum fólks með þroskahömlun. Fyrri verkefni hafa sýnt fram á að hægt er að aðlaga aðferð stafrænna frasagna að þörfum tiltekins markhóps. Með þessari nálgun geta þátttakendur upplifað valdeflingu og viðurkenningu, því þátttakendum gefst tækifæri til að koma rödd sinni á framfæri og líta inn á við, sem eflir sjálfsvitund og sjálfsmynd. Í aðferðinni felst sjálfsskoðun og aukinn skilningur á fjölbreytileika í gegnum þær persónulegu frásagnir sem þátttakendur deila. Þátttakendum gefst færi á að efla hópvitund sína og samskiptafærni í hópavinnu undir leiðsögn leiðbeinenda. Sköpunargáfa þátttakenda er virkjuð og hvatt er til gagnrýnnar hugsunar. Þar að auki getur aðferðin leitt til aukinnar grunnfærni, læsi og tækniþekkingar með þeirri vinnu sem felst í handritaskrifum, talsetningu og myndbandsvinnu.

Haustið 2019 fóru 3 starfsmenn frá Ási til Danmerkur. Þar voru þeir þjálfaðir í því að halda vinnustofu í stafrænni sögugerð.

Fyrirhugað er að þrjár vinnustofu verði haldnar. Á Ítalíu í nóvember 2019, í Litháen í janúar 2020 og í Slóveníu í mars 2020. Á hverja vinnustofu munu 2 úr hópi fatlaðs fólks fara með 2 aðstoðarmenn. Alls taka 5 Evrópulönd þátt í verkefninu: Finnland, Ísland, Ítalía, Litháen og Slóvenía.