Skip to main content
search
0

 

Viðverustefna 2022-2027

Stefna Áss styrktarfélags er að draga úr fjarveru starfsmanna og leiðbeinenda til hagsbóta fyrir þá sjálfa og þjónustu félagsins. Þetta er m.a. gert með samtölum við fólk og stuðning við það í aðstæðum í vinnu sem og eftir því sem hægt er og ástæða er til, vegna veikinda og slysa, áfalla og brýnna fjölskylduaðstæðna. Lögmæti fjarvista er skoðað í hverju tilviki fyrir sig.

Starfsfólki er kynnt stefnan við upphafi starfs síns. Hún er einnig aðgengileg starfsmönnum á heimasíðu og í starfsmannahandbók.

Markmið viðverustefnu er að lágmarka fjarveru frá vinnu og draga úr veikindafjarvistum með markvissum aðgerðum sem eru samræmdar og fela í sér stuðning og jákvæð viðhorf.

Tilgangur viðverustefnu er að samræma vinnuferla vegna fjarveru, að það sama eigi við um alla starfsmenn og að tekið sé á fjarvistum með sanngjörnum og samræmdum hætti. Hún nýtist vinnustaðnum til að skipuleggja viðbrögð við fjarveru.

Nánar er um viðveru og fjarvistir 
(Upplýsingar og skilgreiningar til að forðast misskilning)

Skylda starfsfólks gagnvart vinnuveitanda 
Skylda starfsmannsgagnvart vinnuveitanda er að mæta til vinnu á umsömdum tíma og gera viðeigandi ráðstafanir ef hann getur ekki sinnt vinnuskyldu sinni.

Samskipti  
Það er stefna félagsins að halda tengslum við starfsmenn í veikindum þeirra og styðja þá m.a. með upplýsingum um þau úrræði sem þeim stendur til boða. Yfirmaður hefur samband á fyrstu tveimur vikum veikinda og síðan reglulega eftir það, samkvæmt nánara samkomulagi. Farið er með heilsufarsupplýsingar sem trúnaðarmál í samræmi við lög um persónuvernd.

Skilgreiningar á fjarvistum 
Langtímafjarvistir  
Langtímafjarvistir eru skilgreindar sem fjarvera vegna veikinda eða slysa sem vara samfellt í 30 daga eða lengur. Allar aðrar fjarvistir vegna veikinda eða slysa teljast vera skammtímafjarvistir. Starfsmanni sem hefur verið óvinnufær vegna veikinda eða slyss samfellt í einn mánuð eða lengur er ekki heimilt að koma til starfa að nýju nema læknir votti að heilsa hans leyfi það og þarf hann því að skila inn starfshæfisvottorði.

Áður en starfsmaður kemur aftur til starfa eftir langtíma veikindi þurfa yfirmaður og hann að eiga samtal um hvernig endurkomu skuli háttað. Farið er yfir með hvaða hætti er hægt að aðlaga starf eða vinnuumhverfi til að auðvelda starfsmanni endurkomu ef það á við. Ef um er að ræða breytt vinnufyrirkomulag eða skert starfshlutfall skal gera um það skriflegt samkomulag með rétt bæði vinnuveitanda og starfsmanns í huga. Þegar langvarandi veikindi leiða til skertrar starfsgetu eða ef starfsmaður skilar inn starfshæfivottorði um skert starfshlutfall er það stefna Áss að reyna að koma tímabundið til móts við þarfir viðkomandi starfsmanns varðandi skert starfshlutfall á móti veikindalaunum,að öllu jöfnu ekki lengur en í 4-6 vikur. Slíkt leyfi er þó alltaf háð aðstæðum á vinnustað og ákvörðun yfirmanns.

Skammtímafjarvistir 
Skammtímafjarvistir eru  fjarvistir vegna veikinda eða slysa í skemmri tíma en 30 daga.

Ólögmætar fjarvistir 
Ólögmætar fjarvistir teljast fjarvistir sem eiga sér hvorki stoð í kjarasamningum né hafa verið veittar með leyfi yfirmanns. Mæti starfsmaður ekki til starfa án skýringa skal yfirmaður setja sig í samband við hann og gera honum grein fyrir mikilvægi þess að skýra fjarvist sína. Ef starfsmaður sinnir því ekki skal líta svo á að hann hafi einhliða og á sína ábyrgð rift ráðningarsamningi og sé hættur í vinnu hjá félaginu.

Tilkynningar um veikindi eða slys 
Veikindi eða slys skulu tilkynnt símleiðis eða með tölvupósti, eins fljótt og auðið er. Starfsmanni ber ekki skylda að gefa yfirmanni upplýsingar um persónuleg eða heilsutengd mál, en fjarvera frá vinnu hefur áhrif á vinnustað og hana þarf að ræða og vinna með. Veikindavottorði skal skilað eftir tveggja daga veikindi nema yfirmaður biðji um annað ásamt kvittun við fyrsta tækifæri.  Kostnaður vegna vottorðs fæst endurgreiddur með næstu útborgun. Allir veikindadagar skrást launalausir þar til vottorði hefur verið skilað. Ekki er hægt að skila vottorði aftur í tímann, heldur þarf að skila því innan þess launatímabilsins sem veikindin eiga sér stað. Undantekning á þessu er ef veikindi eiga sér stað við eða yfir launatímabilaskipti (15. hvers mánaðar) og skal þá skila vottorði um leið og því verður viðkomið.

Veikindi eða slys í sumarleyfi
Ef starfsmaður veikist eða verður fyrir slysi í sumarleyfi skal hann tilkynna það strax á fyrsta degi en ekki þegar hann mætir aftur til vinnu eftir sumarleyfi. Ef ekki næst í yfirmann vegna þess má nota tölvupóst eða hafa samband við skrifstofu félagsins ella getur farið svo að veikindi fáist ekki bætt.

Tíðar fjarvistir 
Tíðum fjarvistum er fylgt eftir með formlegu fjarverusamtali þar sem tilgangurinn er að draga úr fjarvistum vegna veikinda eða persónulegra aðstæðna. Enn fremur er farið yfir aðstæður á vinnustað sem geta haft áhrif á starfsgetu og leitað er leiða til að viðhalda starfsgetu starfsmannsins. Eyðublaðsem notað er við fjarverusamtal er til staðar.

Fjarvistir af persónulegum ástæðum 
Til skammtímafjarvista af persónulegum ástæðum teljast m.a. fjarvistir vegna jarðarfara, læknisheimsókna, foreldraviðtala, óvæntra atvika o.fl.

Persónuleg erindi 
Starfsmenn skulu sinna persónulegum erindum utan vinnutíma verði því við komið. Sé því ekki viðkomið er stefna Áss að starfsmenn geti sinnt þessum erindum eftir því sem aðstæður leyfa á vinnustaðnum. Í slíkum tilfellum skal starfsmaður undantekningarlaust fá leyfi frá yfirmanni.

Fjarvera vegna andláts nákomins ættingja
Vegna fráfalls nákominna ættingja s.s. barna, maka eða foreldra er yfirmanni heimilt að veita starfsmönnum leyfi til að vera frá vinnu í allt að 5 virka daga á launum, metið hverju sinni. Eftir þann tíma er forstöðumanni heimilt að veita ólaunað leyfi eða sumarleyfi í 4-6 vikur eftir aðstæðum.

Fjarvera vegna jarðafarar/kistulagningar
Starfsmönnum Áss styrktarfélags er heimiluð fjarveran á launum í hálfan dag, í samráði við yfirmann, vegna kistulagninga og jarðafara fjölskyldu og náinna vina, að teknu tilliti til búsetu hins látna

Veikindi barna yngri en 13 ára
Fjarvera vegna brýnna fjölskylduaðstæðna er ekki kjarasamningsbundinn réttur nema þegar um er að ræða veikindi barna yngri en 12 ára. Nýta má að hluta eða að öllu leyti rétt vegna barna undir 18 ára aldri í alvarlegum tilvikum sem leiða til sjúkrahúsvistar. Umfang fjarvista vegna fjölskylduaðstæðna þarf að meta hverju sinni en almenna reglan er að starfsmaður haldi launum fyrst um sinn. Ef ljóst er að fjarvistir frá vinnu verði taldar í vikum skal gera skriflegt samkomulag um leyfi frá störfum. Slíkt samkomulag tekur mið af aðstæðum starfsmannsins hverju sinni. Samkomulagið getur falið í sér töku orlofs eða launalaust leyfi.

Veikindi barna til 18 ára aldurs 
Í samráði við forstöðumann vegna sérstakra aðstæðna t.d. langtímaveikinda og/eða sjúkrahúsdvalar gildir sami veikindaréttur og kjarasamningar kveða á um börn að 12 ára aldri, að hámarki 12 dagar á ári.

Áfengis- og vímuefnameðferð
Ás styrktarfélag lítur svo á að alkahólismi og vímuefnavandi séu fíknisjúkdómar. Þeir starfsmenn sem hafa starfað í 1 ár eða lengur og eru fastráðnir eiga þess kost að fara í áfengismeðferð en ekki oftar en einu sinni á 2ja ára tímabili. Skulu launagreiðslur þá vera í samræmi við launagreiðslur í veikindum og veikindaréttur starfsmanna skerðist sem meðferðartímanum nemur eins og í öðrum veikindum. Gert er ráð fyrir fullri meðferð þ.e. afvötnun og allt að 4-6 vikna eftirmeðferð enda er þátttaka í meðferð vottuð af meðferðaraðila.

Önnur óvænt atvik 
Starfsmanni ber að tilkynna strax á sinn vinnustað ef ytri aðstæður s.s. tafir á flugi, óveður eða annað veldur því að viðkomandi getur ekki mætt til vinnu á tilsettum tíma. Þetta á fyrst og fremst við þegar almenningssamgöngur virka ekki. Að öðru leiti eru ferðalög/ferðir á ábyrgð hvers og eins starfsmanns. Launagreiðslur eða réttur til launa er skoðaður í hverju atviki fyrir sig.

Vinnustund 
Haldið er utan um skráningu viðveru og fjarvista í Vinnustund. Við upphaf starfs fá allir starfsmenn aðgang að Vinnustund og geta þar fylgst með viðveruskráningu, vaktaskráningu gefið útskýringar á fjarveru og sent inn fjarveru- og leyfisbeiðnir. Launadeild veitir aðgang og þjónustu vegna Vinnustundar. Starfsmaður er ábyrgur fyrir því að skrá inn- og útstimplanir auk þess að yfirfara vinnutíma og gefa skýringar á fjarveru. Starfsmenn skulu viðhalda réttri skráningu í Vinnustund og vera búnir að yfirfara hana fyrir 15. dag hvers mánaðar. Yfirmönnum og launafulltrúa er heimilt að leiðrétta og vinna með tímaskýrslur starfsfólks. Mikilvægt er að skráningar séu réttar í Vinnustund og ber starfsmaðurinn sjálfur og næsti yfirmaður ábyrgð á að fylgjast með því.

Ef starfsmenn yfirgefa vinnustað í persónulegum erindagjörðum með samþykki yfirmanns ber þeim að stimpla sig út þegar vinnustaðurinn er yfirgefinn og inn aftur við komu.

Óheimilt er að stimpla annað starfsfólk inn eða út úr vinnu.

Samþykkt af stjórn 15.03.2022.