Skip to main content
search
0

Project SEARCH er 9 mánaða starfsnám sem fer fram á vinnustað sem leggur til húsnæði, verkefni, tengilið og fleira sem þarf til. Kennslan fer fram í „skólastofu“ og í 3 mismunandi deildum fyrirtækis þar sem kennd eru félagsleg færni og vinnufærni sem nýtist nemendum í vegferð sinni út á almennan vinnumarkað.

Áherslur námsins eru á að einstaklingurinn fái vinnu á almennum vinnumarkaði, sé ráðinn beint af fyrirtækinu og fái laun samkvæmt kjarasamningum. Ekki er gert ráð fyrir að fyrirtæki sem ráða til sín fólk sem lýkur náminu nýti sér vinnusamninga, enda séu þeir ekki hluti af eðlilegu ráðningaferli né til þess fallnir að fólk sé metið að verðleikum. Þeir bjóði auk þess upp á fyrirfram efasemdir um að viðkomandi ráði við starfið.

Verkefnið þjónar ungu fólki með þroskahömlun og aðrar fatlanir sem þurfa stuðning til að ná markmiðum sínum á vinnumarkaði.

Námið er ólaunað og fer fram á Landspítala Háskólasjúkrahúsi, í formi fræðslu og starfsþjálfunar.

Project SEARCH á rætur að rekja í Cincinnati, Ohio í Bandaríkjunum. Upphafsmenn þess eru Erin Riehle og Susie Rutkowski, en það var árið 1996 sem Erin hafði samband við Susie til að kanna hvort hún vissi af fötluðu fólki sem hefði áhuga á að vinna á Cincinnati Childrens medical center. Í framhaldi af því þróuðu þær starfsnám sem miðar að því að greiða götur fatlaðs fólks að atvinnuþátttöku á almennum vinnumarkaði. Project SEARCH er ætlað að ögra viðhorfum til vinnuframlags og litlum væntingum til fatlaðs fólks á atvinnumarkaði sem hafa verið lífsseig hingað til. Lögð er áhersla á að skapa mjög jákvæða mynd af fötluðum starfsmönnum sem er áhrifaríkasta leiðin til að breyta viðhorfum til hins betra.


Ef spurningar vakna um verkefnið er velkomið hafa samband í gegnum netfangið ps@styrktarfelag.is

Í janúar 2024 var gefin út heimildamyndin Project SEARCH: Allir með sem hægt er að skoða hér.

Umsóknarfrestur í starfsnám Project SEARCH er til 01.05.2024 fyrir önnina sem verður haust 2024/2025.

Hér er hægt að sækja um í Project SEARCH

Hér fyrir neðan er saga verkefnisins hjá Ási styrktarfélagi rakin


Staðan á Project SEARCH verkefninu 08.03.2024

Project SEARCH er 9 mánaða starfsnám sem fer fram á vinnustað sem leggur til húsnæði, verkefni, tengilið og fleira sem þarf til. Áherslur námsins eru á að einstaklingurinn fái vinnu á almennum vinnumarkaði og fái laun samkvæmt kjarasamningum

Þegar þetta er skrifað eru aðeins rúmir tveir mánuðir eftir af starfsárinu 2023-2024 hjá Project SEARCH. Útskrift verður í maí  og hefja starfsnemar vonandi störf á almennum vinnumarkaði í kjölfar þess.

Frá því að starfsnám PS hófst árið 2022 á Landspítalanum hafa starfsdeildum sem starfsnemar fá tækifæri til að starfa á fjölgað. Það þýðir aukin tækifæri fyrir starfsnemana til að velja starf og verkefni sem vekja áhuga þeirra og hentar starfsgetu og kunnáttu hvers og eins.

Í haust byrjuðu starfsnemar að vinna í lyfjaþjónustu Landspítalans, í þvottahúsi Landspítalans á Tunguhálsi og við lóðaumsjón fyrir hin ýmsu húsnæði spítalans. Að auki hafa starfsnemar PS meðal annars unnið í eldhúsum Landspítalans á Hringbraut, í Fossvogi og í Skaftahlíð. Einnig höfum er unnið í býtibúri, vörumóttöku, vörudreifingu, rúmaþvotti, vörusölu deilda og fleira.  Öllum starfsnemum hefur líkað mjög vel við, enda eru verkefnin mjög fjölbreytt og krefjandi.

Við fögnum þessum auknu tækifærum og fjölbreytileika á verkefnum og starfsdeildum og erum við afar þakklát fyrir það góða samstarf og teymisvinnu sem Landspítalinn hefur veitt okkur.

Við hvetum áhugasama um að sækja um þátttöku í starfsnámi Project SEARCH, Ísland fyrir veturinn 2024-2025.

Umsóknarfrestur er til 15. apríl.2024, framlengdur til 01.05.2024.

____________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________

Heimildamyndin Project SEARCH: Allir með – 08.01.2024

Þriðjudaginn 09.janúar kl 21.20 var heimildamyndin Project SEARCH: Allir með sýnd á Ríkissjónvarpinu.

Heimildamyndin gefur góða mynd af verkefninu sem miðar að því að styðja fatlað fólk til atvinnuþátttöku á almennum vinnumarkaði.
Myndin fylgir starfsnemum eftir í starfsþjálfun frá hausti 2022 til útskriftar vor 2023.

Myndina má sjá hér

____________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________

Grein um Project SEARCH í blaði Þroskaþjálfafélags Íslands – 04.07.2023

Í júli kom út Þroskaþjálfinn – fagblað Þroskaþjálfafélags Íslands þar sem fjallað er um framþróun í þjónustu, réttindum og þroskaþjálfastarfinu.

Ein af greinum blaðsins heitir Project SEARCH á Íslandi þar sem Valgerður Unnarsdóttir fjallar um verkefnið; upphaf þess, framgang, þjálfun starfsnema og hvað það gefi henni sem þroskaþjálfa að takast á við það.

Það eru margar aðrar áhugaverðar greinar í blaðinu, við mælum með lestri þess.

Þið getið lesið viðtalið með því að ýta á þennan hlekk. Viðtalið helst á blaðsíðu 15.

____________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________

Útskrift Project SEARCH starfsnema- 08.06.2023

Þann 1. júní síðastliðinn var fyrsta útskrift Project SEARCH á Íslandi.

Þá luku 5 manns við níu mánaða starfsnám á Landspítala. Veturinn var lærdómsríkur og stóðu nemendur sig með miklum sóma.

Hér er um að ræða flottan hóp sem á framtíðina fyrir sér á vinnumarkaði. Það verður gaman að fylgjast með þeim í þeim störfum sem þau taka sér fyrir hendur.

Á útskriftarathöfninni sem haldin var í Hringsölum á Landspítalanum fóru starfsnemarnir yfir hvað þau höfðu gert í starfsnáminu með aðstoð Valgerðar sem stýrt hefur verkefninu.

Árný Ósk Árnadóttir, tengiliður Landspítala við Project SEARCH, talaði fyrir hönd Landspítalans og lýsti upplifun spítalans af samstarfinu.

Þórður (formaður Áss styrktarfélags) hélt stutta tölu og óskaði útskriftanemendum til hamingju með áfangann.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra sendi góðar kveðjur með myndskilaboðum þar sem hann átti ekki heimangengt og Haraldur Helgason kom fram fyrir hönd samstarfsfólks úr veitingaþjónustu og færði útskriftarnemunum gjafir frá starfsfólki og þakkaði fyrir samstarfið.

Að lokum var horft á stutt myndskilaboð frá Erin og Susie upphafskonum Project SEARCH frá Ohio í Bandaríkjunum.

Útskriftinni var loks fagnað með veitingum og gjöfum í lok athafnar.

Til hamingju útskriftarnemar Project SEARCH.

____________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________

Inntökudagur í Project SEARCH – 11.05.2023

Nú líður að lokum fyrsta vetrar Project SEARCH. Umsóknarfrestur um þátttöku næsta vetur rann út þann 20. apríl s.l.

Þann 4. maí var haldinn inntökudagur þar sem umsækjendur reyndu fyrir sér í verkefnum líkum þeim sem verið er að fást við í starfsnáminu.

Dagurinn tókst vel í alla staði og nú hafa sjö manns fengið inngöngu næsta vetur.

____________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________

Kynningarfundur á Project SEARCH – 05.04.2023

27. mars síðastliðinn var haldin kynning á Project SEARCH fyrir útskriftarnema framhaldsskóla. Ágætis mæting var á kynninguna og fólk var áhugasamt um verkefnið.

Núverandi starfsnemar stóðu sig frábærlega við kynningu verkefnisins. Þau fjölluðu um hvaða verkefnum þau hafa sinnt í sínu starfsnámi og hvernig þeim hefur gengið. Þau svöruðu spurningum vel og skilmerkilega.

Umsóknarfrestur fyrir næsta vetur er til 21. apríl, við hvetjum áhugasama um að setja sig í samband við þá sem halda utan um verkefnið í gegnum netfangið ps@styrktarfelag.is ef það vakna spurningar.

______________________________________________________________________________________________________________________________________

Áframhald á Project SEARCH verkefninu – 14.02.2023

Byggt á fréttatilkynningu af vef stjórnarráðsins

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur veitt verkefninu Project SEARCH áframhaldandi stuðning en markmið þess er að efla atvinnuþátttöku fatlaðs fólks á almennum vinnumarkaði. Aðferðafræði verkefnisins er að bandarískri fyrirmynd og starfað er eftir módelinu víða um heim.Project SEARCH felur í sér níu mánaða starfsnám sem miðar að því að þátttakendur öðlist færni og sjálfsöryggi til að takast á við störf á almennum vinnumarkaði.

Í byrjun árs 2022 veitti ráðherra Ási styrktarfélagi styrk til þess að þróa og innleiða verkefnið hér á landi og finna samstarfsaðila til þess að hýsa námið. Landspítali háskólasjúkrahús sýndi verkefninu áhuga og sl. haust hófu sex einstaklingar starfsnám á spítalanum. Starfsnemarnir hittu ráðherra nýverið, sýndu honum vinnustaðinn og sögðu frá starfinu. Við sama tækifæri undirritaði ráðherra 36 m.kr. samning um áframhaldandi stuðning við verkefnið.

Samningurinn mun gera Ási kleift að bjóða fleiri einstaklingum að hefja starfsnám næsta haust.„Project SEARCH hefur í för með sér ný og spennandi tækifæri fyrir ungt, fatlað fólk,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. „Það er stórkostlegt að sjá starfsnemana blómstra. Ég hef lagt áherslu á að fjölga verulega starfstækifærum fyrir fatlað fólk og einstaklinga með mismikla starfsgetu og það er frábært að sjá það raungerast.“

„Að auka tækifæri á almennum vinnumarkaði skiptir máli fyrir okkur öll. Með þessu verkefni er unnið með styrkleika fólks. Það opnar ný tækifæri fyrir fatlað fólk og ekki síst fyrir atvinnurekendur til að sækja vinnuafl til hóps sem ekki hefur verið fjölmennur á vinnumarkaði hingað til,“ segir Þóra Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Ás styrktarfélags.

Aukin trú á eigin getu

Starfsnemarnir í Project SEARCH hafa síðan í september lært störf á þjónustusviði Landspítalans í eldhúsi, línafgreiðslu, lager, vörumóttöku og við sótthreinsun sjúkrarúma. Hver og einn nemandi er í tíu vikur á hverri deild og áhersla er lögð á að þau öðlist færni í fjölbreyttum verkefnum.

Starfsfólk á vegum Áss styrktarfélags heldur utan um nemendurna og samhliða starfsnáminu fá þau fræðslu um ýmislegt er varðar atvinnumál, réttindi, skyldur, samskipti, samvinnu, fjármál og fleira sem nýtist til aukins sjálfstæðis og þegar komið er út á almennan vinnumarkað.

Að sögn Landspítalans hafa nemendurnir náð miklum framförum, öðlast öryggi í þeim störfum sem þeim hafa verið falin og aukna trú á eigin getu. Samstarfsfólkið hefur enn fremur mætt þeim af jákvæðni og hjálpsemi.

Á seinni hluta námstímans fá nemarnir síðan aðstoð við að sækja um störf og undirbúa sig fyrir almenna atvinnuþátttöku.

Eftirfylgni verður jafnframt með þeim sem lokið hafa námi, fylgst með starfsferli þeirra og þau aðstoðuð eftir þörfum.

Róbert Alexander Erwin, starfsnemi:„Aldrei gefast upp á að uppfylla drauma þína.“

Védís Harðardóttir, starfsnemi:„Æfingin skapar meistarann.“

Shane Kristófer Mapes, starfsnemi:„Ég finn sjálfur verkefnin sem þarf að vinna.“

Fréttastofa RÚV fjallaði um þennan frábæra áfanga og tók viðtal við starfsnemana. Innslagið má sjá hér.

______________________________________________________________________________________________________________________________________

Staðan á Project SEARCH verkefninu – 17.11.2022

16.nóvember birti Landspítalinn frétt á vef sínum þar sem verkefnið var kynnt og  fjallað um aðkomu spítalans að því. Hægt er að skoða fréttina frá Landspítalanum með því að ýta hér.  Landspítalinn útvegar aðstöðu til kennslu og starfsþjálfunar og tengilið sem sér um að finna störf til kennslu. Ás styrktarfélag lýsir þakklæti til ráðherra með stuðning í verki og Landspítalans að taki þátt í verkefninu og greiði þannig götu fyrir fatlað fólk að auknum atvinnutækifærum. Það er ómetanlegt fyrir þetta unga fólk að fá tækifæri til að starfa á jafn fjölmennum og fjölbreyttum vinnustað.

Fimmtudaginn 17.nóvember kynntu þátttakendur og leiðbeinendur þeirra stöðuna fyrir Guðmundi Inga Guðbrandssyni Félags- og vinnumarkaðsráðherra. Meðal gesta voru Jón Haukur Baldvinsson deildarstjóri frá Landspítalanum, aðstandendur og aðrir áhugasamir. Þátttakendurnir sögðu frá verkefninu og hvernig hefur gengið. Sérstaklega áhugavert var að heyra þau sjálf segja frá sinni upplifun og hvaða gildi það hefur fyrir þau. Umræður sköpuðust á fundinum og var ánægjulegt að þeir sem tjáðu sig binda miklar vonir við framtíð verkefnisins.

______________________________________________________________________________________________________________________________________

Hvað er Pojcect SEARCH og heimsókn frá upphafsmönnum verkefnsins – 12.05.2022

Project SEARCH á rætur að rekja í Cincinnati, Ohio í Bandaríkjunum. Upphafsmenn þess eru Erin Riehle og Susie Rutkowski, en það var árið 1996 sem Erin hafði samband við Susie til að kanna hvort hún vissi af fötluðu fólki sem hefði áhuga á að vinna á Cincinnati Childrens medical center. Í framhaldi af því þróuðu þær starfsnám sem miðar að því að greiða götur fatlaðs fólks að atvinnuþátttöku á almennum vinnumarkaði. Project SEARCH er ætlað að ögra viðhorfum til vinnuframlags og litlum væntingum til fatlaðs fólks á atvinnumarkaði sem hafa verið lífsseig hingað til. Lögð er áhersla á að skapa mjög jákvæða mynd af fötluðum starfsmönnum sem er áhrifaríkasta leiðin til að breyta viðhorfum til hins betra.

Project SEARCH er 9 mánaða starfsnám sem fer fram á vinnustað sem leggur til húsnæði, verkefni, tengilið og fleira sem þarf til. Kennslan fer fram í „skólastofu“ og í 3 mismunandi deildum fyrirtækis þar sem kennd eru félagsleg færni og vinnufærni sem nýtist nemendum í vegferð sinni út á almennan vinnumarkað.

Áherslur námsins eru á að einstaklingurinn fái vinnu á almennum vinnumarkaði, sé ráðinn beint af fyrirtækinu og fái laun samkvæmt kjarasamningum. Ekki er gert ráð fyrir að fyrirtæki sem ráða til sín fólk sem lýkur náminu nýti sér vinnusamninga, enda séu þeir ekki hluti af eðlilegu ráðningaferli né til þess fallnir að fólk sé metið að verðleikum. Þeir bjóði auk þess upp á fyrirfram efasemdir um að viðkomandi ráði við starfið.

Heimsókn Erin og Susie 

Vikuna 4.-8. apríl komu þær Erin Riehle og Susie Rutkowski til okkar. Tilgangur heimsóknarinnar var að aðstoða okkur við að innleiða Project SEARCH á Íslandi. Meðan á heimsókn þeirra stóð voru haldnar kynningar fyrir mögulega samstarfsaðila okkar varðandi verkefnið og einnig unnu þær að undirbúningi verkefnisins með starfsmönnum þess, Valgerði og Petru og framkvæmdastjóranum, Þóru.

Það er ekki annað hægt að segja um heimsóknina en að hún hafi gagnast vel og að þær stöllur hafi hrifist af landi og þjóð. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við þær.

Verkefninu Project SEARCH ýtt úr vör – 16.02.2022

Þann 16.febrúar 2022 tók Ás styrktarfélag á móti styrk frá Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Styrkurinn er veittur til að styðja félagið í því að innleiða og koma af stað verkefninu Project SEARCH.

Project SEARCH kemur upprunalega frá Children’s Hospital Medical Center í Cincinnati í Bandaríkjunum og var upphaflega sett af stað 1996.  Í dag er er starfað eftir Project Search víðsvegar í Bandaríkjunum og 10 öðrum löndum.

Verkefnið miðar að því að styðja fatlað fólk til atvinnuþátttöku á almennum vinnumarkaði. Áhersla er lögð á samstarf við fyrirtæki.  Verkefnið gengur út á sambland af fræðslu og starfsþjálfun yfir 9 mánaða tímabil. Markmiðið er að eftir að náminu lýkur fái þátttakendur vinnu á almennum vinnumarkaði. Mikil áhersla er lögð á samstarf þeirra aðila sem koma að einstaklingnum og tengja saman framhaldsskólalok og atvinnulífið. Með verkefninu verður jafnframt unnið markvisst að því að vinnustaðamenning verði þannig að fötluðum starfsmanni sé tekið á jafningjagrundvelli og að hann tilheyri starfsmannahópnum frá upphafi ráðningar

Árið 2018 kynntust starfsmenn Áss Project SEARCH á ráðstefnu á Bandaríkjunum og hrifust af verkefninu. Stefnt hefur verið að því að koma því af stað hér á landi. Haustið 2021 tók stjórn Áss styrktarfélags þá ákvörðun að setja kraft í að koma verkefninu af stað. Samningur um einkaleyfi var undirritaður í lok árs 2021.

Við þökkum Félags- og vinnumarkaðsráðherra fyrir að styðja okkur til að veita atvinnumálum fatlaðs fóks brautargengi með þessum hætti. Hann hafði þetta um málið að segja við undirritun samningsins (Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra); „Ég legg mikla áherslu á að fjölga markvisst starfstækifærum einstaklinga með fötlun og skerta starfsgetu. Það að tilheyra hópi og hafa hlutverk skiptir okkur öll miklu máli í lífinu. Um er að ræða spennandi verkefni sem hefur sannað sig víða um heim og ég hlakka til að fylgjast með framgangi þess næstu misserin og hvort og þá hvernig við gætum mögulega byggt á því til lengri framtíðar í atvinnumálum fatlaðs fólks“ (Tekið af vef stjórnarráðsins).