Skip to main content
search
0

Vilnius

Í október 2015 hélt Ás styrktarfélag ráðstefnu í Vilnius í samstarfi við Vilniaus Viltis í Litháen. Samtökin í Litháen sáu um ytri umgjörð ráðstefnunnar og Ás styrktarfélag um allt innihald.

Ráðstefnan var framhald á annarri sem var haldinn í sömu borg í maí 2015. Að þessu sinni fóru tveir fulltrúar félagsins utan, þær Þóra Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri og Hrefna Sigurðardóttir ráðgjafi. Efni ráðstefnunnar var samkvæmt óskum stjórnar Viltis í Litháen og ráðstefnugesta í maí og var meiri áhersla lögð á hópastarf í þetta sinn.

Hrefna Crop

Á fyrsta degi var kynnt ítarlega uppbygging og innra skipulag Áss styrktarfélags, farið í grunngildin og undirstöðu starfsins. Þátttakendur fengu það verkefni að skoða ýmsa þætti hjá Viltis út frá því sem þarna var kynnt, s.s. hver eru grunngildin sem allt byggir á?

Thora Crop

Á öðrum degi var yfirskriftin gildi þess að vera þátttakandi bæði heima og í starfi. Þá var skoðað hvað lög, reglugerðir og sáttmálar segja um þetta í samanburði við hvernig það er í raun. Einnig var fjallað um vægi þekkingar og reynslu og þar með mikilvægi starfsmanna félagsins. Hvernig má hvetja þá til að skila sínu hlutverki sem best?

Radstgestir Crop

Lokadagurinn fjallaði um möguleika einstaklingsins á að lifa lífinu til fulls, meðal annars með tilliti til fjölskyldulífs. Rætt var um sjálfstætt líf og hvað það getur falið í sér og var til að mynda sagt frá sjónvarpsþáttunum „Með okkar augum“. Þá voru kynnt ýmis verkefni og útgáfa á vegum félagsins, s.s. verkefnið Breyttur lífsstíll, efni sem notað er í kynfræðslu og bókin „Að flytja að heiman“.

H Th B Og Edita Crop

Þar með er lokið síðasta stóra verkefninu í tengslum við samstarf Áss styrktarfélags og samtakanna Vilnius Viltis í Litháen. Má segja að þetta hafi verið gagnkvæmur lærdómur og ómetanlegt að fá að kynnast starfi félaga okkar ytra.