Vilnius
Ás styrktarfélag hélt ráðstefnu í Vilnius í maí 2015 fyrir starfsfólk og stjórnarmeðlimi samtakanna Viltis í Litháen. Eins og áður hefur komið fram eiga þessi félög í samstarfi sem er styrkt af Þróunarsjóði EFTA. Vilniaus Viltis sá um skipulag og framkvæmd á ytri umgjörð ráðstefnunnar en Ás styrktarfélag sá alfarið um innihaldið.
Yfirskrift samstarfs félaganna var að styrkja innviði og starf samtakanna Vilniaus Viltis til hagsbóta fyrir fatlað fólk í Vilnius.
Á ráðstefnunni var lögð áhersla á að kynna starfsemi og umfang Áss styrktarfélags í sögulegu og menningarlegu samhengi.
Vel var hugsað um fyrirlesarana frá Íslandi, þeim boðið í skoðunarferð til Trakai og Kernavé og í mat hjá Litháenskri fjölskyldu.
Dagskrá ráðstefnunnar
Fyrsta daginn var farið yfir þróun starfsemi Áss styrktarfélags í sögulegu samhengi. Eins og gefur að skilja er saga félagsins nátengd sögu og þróun málefna fatlaðs fólks almennt á Íslandi og var því um heilmikið efni að ræða. Áhersla var lögð á að kynna aðkomu aðstandenda í þessu samhengi, mikilvægi sjálfboðaliðastarfs og tengslamyndunar við ráðandi öfl í þjóðfélaginu. Þennan fyrsta dag var einnig farið yfir hvernig hefur gengið með lokun stofnana og uppbyggingu þjónustu og tækifæra almennt í samfélaginu.
Annar dagur ráðstefnunnar var helgaður vinnu og mikilvægi markvissra vinnubragða. Kynntar voru breytingar á Vinnu og virkni sem eru nýafstaðnar hjá Ási styrktarfélagi, aðkomu starfsfólks (með og án fötlunar), aðstandenda og annarra hlutaðeigandi aðila að því ferli. Þá var farið yfir aðferðir og önnur verkfæri sem hjálpa til við stefnumörkun og stuðla að markvissum vinnubrögðum í verkefnum.
Lokadagurinn fjallaði um ýmsa þætti sem tengjast lífshlaupi manneskjunnar. Þar var fjallað um aldurstengdar þarfir og þjónustu, s.s. snemmtæka íhlutun, minningarvinnu fólks með heilabilun og sjálfsákvörðunarréttinn sem er svo mikilvægt að fullorðið fólk hafi. Einnig var talað um þann sjálfsagða rétt manneskjunnar að hafa öll borgaraleg réttindi en svo er ekki hjá þeim sem búa á stofnunum og eru skilgreindir lagalega sem sjúklingar.
Þátttakendur ráðstefnunnar unnu í hópum á milli fyrirlestra þar sem m.a. var rætt hvernig þeir gætu nýtt þessa þekkingu í sínu umhverfi.
Af ofangreindu má sjá að farið var yfir mikið efni en margt á þó eftir að kynna. Í október verður haldin önnur ráðstefna á sama stað þar sem fleiri atriði verða kynnt og farið dýpra í þá þætti sem þátttakendur og stjórnarmeðlimir Vilniaus Viltis óska eftir.
Fyrirlesarar á ráðstefnunni í maí voru Þóra Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri, Hrefna Sigurðardóttir ráðgjafi, Sigurbjörg Sverrisdóttir forstöðumaður í Stjörnugróf og Þórhildur Garðarsdóttir forstöðumaður Vinnu/virkni og starfsmannamála í búsetu.