Skip to main content
search
0

Tveir starfsmenn Áss vinnustofu, Sunna Ósk Stefánsdóttir og Júlíus Pálsson fóru vikuna 24.-31. janúar á vinnustofu í stafrænni sögugerð. Vinnustofan var haldin í Vilnius í Litháen og voru tveir leiðbeinendur á vegum styrktarfélagsins, Brynjar Hans Lúðvíksson og Heba Bogadóttir, með í för. Þessi vinnustofa var önnur af þremur áætluðum í samstarfsverkefninu DigiStorID sem er á vegum Erasmus+.

Vinnustofan fór fram á Dienos Centro“Šviesa“ sem er dagþjónustustaður og hæfingastöð staðsett í Užupis hverfinu sem titlar sig sem lýðveldið Užupis og er mikil listamannanýlenda. Í Šviesa var mikið listastarf þar sem unnið var með textíl, leir, leður, myndlist og handavinnu. Einnig var leiklistarhópur staðnum sem setti upp verk fyrir okkur einn daginn.

Eins og áður þá voru einnig þátttakendur frá hinum þátttökulöndunum: Finnland, Ítalía, Litháen og Slóvenía. Vel var tekið á móti hópnum og gekk sögugerðin vel. Hópurinn var svo heppinn þetta skiptið að hafa nægan frítíma til að skoða sig um og kynnast Vilnius. Heilmikil ljósahátíð átti sér stað helgina sem komið var og lét hópurinn sig ekki missa af henni. Einnig stóð upp úr heimsókn á sjónhverfingasafn þar sem safngripirnir voru gagnvirkir.

Hópnum var boðið á pönnukökuveitingahús sem var aðeins mannað af fötluðu fólki. Matur og þjónusta voru til fyrirmyndar og gaman væri að sjá slíkt framtak hér heima. Einnig stoppaði á hverjum degi kaffibíll fyrir utan vinnustaðinn sem var mannaður af fötluðum starfsmönnum og bauð upp á alla helstu kaffidrykki. Þessi bíll ferðast á alla stærri viðburði bæjarins og býður upp á kaffi endurgjaldslaust með því markmiði að auka sýnileika fatlaðs fólks í samfélaginu.

Þriðja og síðasta vinnustofan í verkefninu mun fara fram í mars 2002. Þá mun vera farið til Trebnje í Slóveníu. Þau gögn og reynsla sem safnast saman úr þessu verkefni mun svo nýtast til að bjóða upp á slíkar vinnustofur fyrir fatlað fólk hér heima.

Auðlesinn texti

Starfs-mennirnir Sunna Ósk Stefánsdóttir og Júlíus Pálsson fóru á vinnu-stofu að gera staf-ræna sögu.

Vinnu-stofan var í Vilnius í Litháen. Vinnu-stofan var 24. til 31. janúar.

Brynjar Hans Lúðvíksson og Heba Bogadóttir fóru líka með.

Vinnu-stofan er hluti af verk-efni sem heitir DigiStorID.

Unnið var á vinnu-stað fyrir fólk með fötlun sem heitir Šviesa. Hann er í hverfi sem heitir Užupis.

Þar búa margir lista-menn. Á vinnu-staðnum er unnið með textíl, leir, leður, mynd-list og handa-vinnu. Þar er líka leik-listar hópur. Þau sýndu leik-rit einn daginn.

Fólk frá Finn-landi, Ítalíu, Litháen og Slóveníu tók líka þátt.

Það var vel tekið á móti okkur.

Það gekk vel að gera sögurnar. Við gátum skoðað borgina. Það var ljósa-hátíð. Við skoðuðum safn.

Við borðuðum á pönnu-köku veitinga-húsi. Þar vann bara fatlað fólk. Maturinn var góður. Þjónustan var góð. Við fengum líka kaffi alla daga. Kaffið kom frá kaffi-bíl þar sem fatlað fólk vann.

Næsta vinnu-stofa verður í Trebnje sem er í Slóveníu.

Seinna verða svona vinnu-stofur hér heima.

DigistorID 2020 – Litháen

Smelltu á mynd til að sjá stærri útgáfu.