Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja felur í sér að fyrirtæki leggja sitt að mörkum til sjálfbærrar þróunar efnahagslífsins og samfélagsins í heild á breiðum forsendum. Fyrirtæki sem kaupa þjónustu af Ási styrktarfélagi sinna samfélagslegri ábyrgð með því að tryggja að fólk með fötlun hafi fjölbreytt verkefni í sinni vinnu.
Í Ögurhvarfi er Ás vinnustofa sem skiptist upp í fimm svæði. Á svæði 1 er saumastofu, textíll og vefur, á svæði 2 er smiðja, iðja og kertagerð, á svæði 3 er ýmis konar vinnuverkefni, svæði 4 hýsir lager og í nýrri viðbyggingu er svæði 5 með Smíkó smíðaverkstæði. Reglulega fjöllum við um afurðir af vinnu á saumastofu, smiðju og Smíkó en ætlum nú að fjalla um svæði 3 en það er það svæði í húsinu þar sem flest vinnuverkefni eru unnin. Þar starfa á bilinu 35-45 manns, margir með fasta starfsstöð en þangað koma sömuleiðis starfsmenn frá öðrum svæðum í styttri tíma og taka þátt.
Oftast er nóg að gera og stundum mörg verkefni í gangi á sama tíma. Vinnuverkefnin eru af ýmsum toga. Það er enn verið að pakka tímaritum í plastpoka og merkja og pakka í umslög. Þessi hluti hefur þó dregist heldur saman, enda verða pappírslaus viðskipti sífellt algengari. Einnig hefur færst í aukana að ýmis minni tímarit séu komin alfarið á netið. Á meðal þeirra tímarita sem enn er verið að pakka í Ási vinnustofu eru Húsfreyjan, Skinfaxi og Þroskahjálp. Í umslagapökkuninni eru Skeljungur og Textor stærstu viðskiptavinirnir. Þetta eru góð verkefni sem allir starfsmenn geta tekið þátt í að vinna.
Á svæði 3 eru líka unnin nokkur föst verkefni sem skipta starfsemina miklu máli. Stærst þeirra er álíming á tóbaksumbúðir fyrir ÁTVR en það verkefni er nánast stöðugt í gangi allt árið. Sömuleiðis er pakkað fyrir Samgöngustofu fræðslu til barna og foreldra í umferðaskólanum.
Annað fyrirtæki sem starfsfólk á svæði 3 vinnur töluvert fyrir er Össur. Fyrir það pökkum við skrúfum og fleiri hlutum og setjum saman lyklakippur. Össur á líkt og ÁTVR og Samgöngustofa langa sögu um samstarf við félagið og mikla tengingu sem ánægjulegt er að haldist áfram.
Auk tímaritanna eru ýmis önnur pökkunarverkefni. Sum þeirra eru árviss viðburður, eins og dagatal Þroskahjálpar og kærleikskúla og jólaórói Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Önnur detta inn á gólf og koma svo kannski aldrei aftur. Leiðbeinendur eru duglegir að finna lausnir á ýmsum óvæntum verkþáttum og sumir starfsmenn eru sérstaklega spenntir fyrir nýjum og krefjandi verkefnum.
Á svæðinu er líka pakkað og sent fyrir Kaupum til góðs, en þar eru álagspunktar jól og páskar.
Það er stundum sagt að enginn geti allt, en allir geti eitthvað og það á sannarlega við á svæði 3. Vinnufærni starfsfólks er misjöfn og sumir eru góðir í einu og aðrir í öðru. Það sem skiptir mestu máli er samt að góður andi og vinnugleði einkenna starfsemina.
Við bendum áhugasömum fyrirtækjum að setja sig í samband við verkefni@styrktarfelag.is vilji þau frekari upplýsingar eða hafi áhuga á samstarfi.
Smelltu á mynd til að sjá stærri útgáfu.