Skip to main content
search
0

Vinnustofa í stafrænni sögugerð á Ítalíu

Fréttamynd - Mynd 8 (2)

Dagana 24.-30. nóvember héldu 2 starfsmenn Áss ásamt 2 leiðbeinendum til Ítalíu til þess að taka þátt í samevrópskri vinnustofu í stafrænni sögugerð. Vinnustofuna sóttu 2 fatlaðir einstaklingar frá Íslandi, Finnlandi, Slóveníu, Litháen og Ítalíu, 10 alls auk leiðbeinenda.

 

Fulltrúar Íslands þetta skiptið voru þau Erna Sif Kristbergsdóttir og Valur Alexandersson ásamt Brynjari Hans Lúðvíkssyni og Hebu Bogadóttur. Fulltrúarnir ferðuðust til smábæjarins Pordenone í norður Ítalíu þar sem unnið var hörðum höndum í 5 daga.

 

Vinnustofan er partur af stærra verkefni sem kallast DigistorID en það er framhaldsverkefni DigiPower sem styrkarfélagið tók einnig þátt í vorið 2017. Þá var um prufuverkefni að ræða þar sem verið var að meta möguleikann á að nýta aðferð stafrænnar sögugerðar í starfi með fötluðu fólki.

 

Niðurstöður þess verkefnis voru svo efnilegar að ákveðið var að setja af stað stærra verkefni þar sem útgáfa af aðferðinni aðlöguð að þörfum fólks með þroskahamlanir yrði mótuð út frá fyrri reynslu. Þrír leiðbeinendur styrktarfélagsins hafa fengið þjálfun við umsjón slíkra vinnustofa og munu þeir taka þátt í að prufukeyra þær á samevrópskum vinnustofum í Ítalíu, Litháen og Slóveníu. Vinnustofan núna í nóvember sl. var sú fyrsta af þessum þremur. Fjórir aðrir starfsmenn styrktarfélagsins munu því fá færi á því að sitja slíka vinnustofu á næstu misserum.

 

Á vinnustofum í stafrænni sögugerð er þátttakendum leiðbeint í gegnum ferli þar sem þeir skapa stutta myndbandsfrásögn af sjálfum sér. Tilgangurinn er að veita einstaklingum sem hafa skert tækifæri til að láta í sér heyra færi á að deila persónulegum upplifunum/hugsunum á aðgengilegan hátt á stafrænu formi.

 

Ferlið hefst á hugarflæði þar sem þátttakendur ákveða frá hverju þeir vilji segja. Þetta fer t.d. fram í umræðum og leikjum sem ætlað er að vekja upp minningar. Þátttakendur skrifa svo handrit og deila með öðrum þátttakendum í þeim tilgangi að fá uppbyggilega endurgjöf. Frásögnin er svo hljóðrituð og myndbandsvinnsluforrit notað til að skeyta hljóðrásinni við myndefni sem sögumaðurinn hefur valið til að fylgja sögunni. Í lok vinnustofunnar stendur sögumaður uppi með frásögn sína í formi stutts myndbands sem hann getur deilt með öðrum eins og hann kýs. Sögumenn fá stuðning leiðbeinenda í gegnum ferlið en mikil áhersla er á að rödd sögumannsins sé í fyrirrúmi, því um persónulega frásögn er að ræða en ekki heimildarmynd. Aðlögun aðferðarinnar snýst m.a. að því að veita aukinn sveigjanleika fyrir stuðningsþörf fatlaðra þátttakenda án þess að virk þátttaka þeirra í verkefninu skerðist.

 

Ef þú ýtir hér þá sérðu myndbandið hennar Ernu

 

Ef þú ýtir hér þá sérðu myndbandið hans Vals