Skip to main content
search
0

Verkefninu Project Search ýtt úr vör

16.02.2022 Í morgun tók Ás styrktarfélag á móti styrk frá Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Styrkurinn er veittur til að styðja félagið í því að innleiða og koma af stað verkefninu Project SEARCH.

 

Project SEARCH kemur upprunalega frá Children’s Hospital Medical Center í Cincinnati í Bandaríkjunum og var upphaflega sett af stað 1996.  Í dag er er starfað eftir Project Search víðsvegar í Bandaríkjunum og 10 öðrum löndum.

 

Verkefnið miðar að því að styðja fatlað fólk til atvinnuþátttöku á almennum vinnumarkaði. Áhersla er lögð á samstarf við fyrirtæki.  Verkefnið gengur út á sambland af fræðslu og starfsþjálfun yfir 9 mánaða tímabil. Markmiðið er að eftir að náminu lýkur fái þátttakendur vinnu á almennum vinnumarkaði. Mikil áhersla er lögð á samstarf þeirra aðila sem koma að einstaklingnum og tengja saman framhaldsskólalok og atvinnulífið. Með verkefninu verður jafnframt unnið markvisst að því að vinnustaðamenning verði þannig að fötluðum starfsmanni sé tekið á jafningjagrundvelli og að hann tilheyri starfsmannahópnum frá upphafi ráðningar

 

Árið 2018 kynntust starfsmenn Áss Project SEARCH á ráðstefnu á Bandaríkjunum og hrifust af verkefninu. Stefnt hefur verið að því að koma því af stað hér á landi. Haustið 2021 tók stjórn Áss styrktarfélags þá ákvörðun að setja kraft í að koma verkefninu af stað. Samningur um einkaleyfi var undirritaður í lok árs 2021.

 

Við þökkum Félags- og vinnumarkaðsráðherra fyrir að styðja okkur til að veita atvinnumálum fatlaðs fóks brautargengi með þessum hætti. Hann hafði þetta um málið að segja við undirritun samningsins (Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra); „Ég legg mikla áherslu á að fjölga markvisst starfstækifærum einstaklinga með fötlun og skerta starfsgetu. Það að tilheyra hópi og hafa hlutverk skiptir okkur öll miklu máli í lífinu. Um er að ræða spennandi verkefni sem hefur sannað sig víða um heim og ég hlakka til að fylgjast með framgangi þess næstu misserin og hvort og þá hvernig við gætum mögulega byggt á því til lengri framtíðar í atvinnumálum fatlaðs fólks“ (Tekið af vef stjórnarráðsins). 

 

Með fréttinni fylgja myndir frá undirritun samnings þar sem saman komu notendaráð Áss, ráðherrann, verkefnastjóri, fulltrúar stjórnar og framkvæmdarstjóri Áss, fulltrúar Vinnumálastofnunar og Þroskahjálpar.