Skip to main content
search
0

Verkefnið var styrkt af þróunarsjóði EFTA, undirritað 10. nóvember 2014 og var til 18 mánaða.

Það fól meðal annars í sér að hópur fólks frá Litháen kom í heimsókn og kynnti sér ýmsa þjónustu og aðra starfsemi tengda málefnum fatlaðs fólks á Íslandi. Einnig fóru fulltrúar frá Ási styrktarfélagi til Vilnius í Litháen og héldu þar tvær þriggja daga ráðstefnur um sömu mál.

Landssamtökin Viltis voru stofnuð 1989 með það að markmiði að efla samfélagsþáttöku og réttindi fólks með þroskahömlun í Litháen. Frá upphafi hafa þau ætlað sér að verða leiðandi afl í að tryggja lagalegan rétt þessa hóps og stuðla að jafnri samfélagsþátttöku. Þau veita ýmis konar þjónustu fyrir ólíka aldurshópa, s.s. stuðning, ráðgjöf og dagþjónustu. Enn er mikið um stórar stofnanir í Litháen og því langt í land.

Samstarfið okkar er við þann hluta samtakanna sem starfar í Vilnius, höfuðborg Litháen.

Hér má fá nánari upplýsingar á ensku um Vilniaus Viltis

Cooperation with Vilniaus Viltis in Lithuania

As styrktarfelag and Vilniaus Viltis in Lithuania have an ongoing partnership agreement on the project: Strengthening of organization „Vilniaus Viltis“ and representing person´s with intellectual disabilities interests. It is sponsored by the EFTA fund, started in November 2014 and will end in May 2016. The objective is to share experience, expertise, skills and goodwill.

A group of people from Viltis, Lithuania comes for a visit in March and gets to know the system and various services for people with disabilities in Iceland. Representatives from As styrktarfelag will go to Vilnius and give two seminars on the same topics.

Here you can find further information on Vilniaus Viltis

 

Ain


Vilnius október 2015

Í október 2015 hélt Ás styrktarfélag ráðstefnu í Vilnius í samstarfi við Vilniaus Viltis í Litháen. Samtökin í Litháen sáu um ytri umgjörð ráðstefnunnar og Ás styrktarfélag um allt innihald.

Ráðstefnan var framhald á annarri sem var haldinn í sömu borg í maí 2015. Að þessu sinni fóru tveir fulltrúar félagsins utan, þær Þóra Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri og Hrefna Sigurðardóttir ráðgjafi. Efni ráðstefnunnar var samkvæmt óskum stjórnar Viltis í Litháen og ráðstefnugesta í maí og var meiri áhersla lögð á hópastarf í þetta sinn.

Á fyrsta degi var kynnt ítarlega uppbygging og innra skipulag Áss styrktarfélags, farið í grunngildin og undirstöðu starfsins. Þátttakendur fengu það verkefni að skoða ýmsa þætti hjá Viltis út frá því sem þarna var kynnt, s.s. hver eru grunngildin sem allt byggir á?

Á öðrum degi var yfirskriftin gildi þess að vera þátttakandi bæði heima og í starfi. Þá var skoðað hvað lög, reglugerðir og sáttmálar segja um þetta í samanburði við hvernig það er í raun. Einnig var fjallað um vægi þekkingar og reynslu og þar með mikilvægi starfsmanna félagsins. Hvernig má hvetja þá til að skila sínu hlutverki sem best?

Lokadagurinn fjallaði um möguleika einstaklingsins á að lifa lífinu til fulls, meðal annars með tilliti til fjölskyldulífs. Rætt var um sjálfstætt líf og hvað það getur falið í sér og var til að mynda sagt frá sjónvarpsþáttunum „Með okkar augum“. Þá voru kynnt ýmis verkefni og útgáfa á vegum félagsins, s.s. verkefnið Breyttur lífsstíll, efni sem notað er í kynfræðslu og bókin „Að flytja að heiman“.

Þar með er lokið síðasta stóra verkefninu í tengslum við samstarf Áss styrktarfélags og samtakanna Vilnius Viltis í Litháen. Má segja að þetta hafi verið gagnkvæmur lærdómur og ómetanlegt að fá að kynnast starfi félaga okkar ytra.


Vilnius ráðstefna í maí 2015

Ás styrktarfélag hélt ráðstefnu í Vilnius í maí 2015 fyrir starfsfólk og stjórnarmeðlimi samtakanna Viltis í Litháen. Eins og áður hefur komið fram eiga þessi félög í samstarfi sem er styrkt af Þróunarsjóði EFTA. Vilniaus Viltis sá um skipulag og framkvæmd á ytri umgjörð ráðstefnunnar en Ás styrktarfélag sá alfarið um innihaldið.

Yfirskrift samstarfs félaganna var að styrkja innviði og starf samtakanna Vilniaus Viltis til hagsbóta fyrir fatlað fólk í Vilnius.

Á ráðstefnunni var lögð áhersla á að kynna starfsemi og umfang Áss styrktarfélags í sögulegu og menningarlegu samhengi.

Vel var hugsað um fyrirlesarana frá Íslandi, þeim boðið í skoðunarferð til Trakai og Kernavé og í mat hjá Litháenskri fjölskyldu.

Dagskrá ráðstefnunnar

Fyrsta daginn var farið yfir þróun starfsemi Áss styrktarfélags í sögulegu samhengi. Eins og gefur að skilja er saga félagsins nátengd sögu og þróun málefna fatlaðs fólks almennt á Íslandi og var því um heilmikið efni að ræða. Áhersla var lögð á að kynna aðkomu aðstandenda í þessu samhengi, mikilvægi sjálfboðaliðastarfs og tengslamyndunar við ráðandi öfl í þjóðfélaginu. Þennan fyrsta dag var einnig farið yfir hvernig hefur gengið með lokun stofnana og uppbyggingu þjónustu og tækifæra almennt í samfélaginu.

Annar dagur ráðstefnunnar var helgaður vinnu og mikilvægi markvissra vinnubragða. Kynntar voru breytingar á Vinnu og virkni sem eru nýafstaðnar hjá Ási styrktarfélagi, aðkomu starfsfólks (með og án fötlunar), aðstandenda og annarra hlutaðeigandi aðila að því ferli. Þá var farið yfir aðferðir og önnur verkfæri sem hjálpa til við stefnumörkun og stuðla að markvissum vinnubrögðum í verkefnum.

Lokadagurinn fjallaði um ýmsa þætti sem tengjast lífshlaupi manneskjunnar. Þar var fjallað um aldurstengdar þarfir og þjónustu, s.s. snemmtæka íhlutun, minningarvinnu fólks með heilabilun og sjálfsákvörðunarréttinn sem er svo mikilvægt að fullorðið fólk hafi. Einnig var talað um þann sjálfsagða rétt manneskjunnar að hafa öll borgaraleg réttindi en svo er ekki hjá þeim sem búa á stofnunum og eru skilgreindir lagalega sem sjúklingar.

Þátttakendur ráðstefnunnar unnu í hópum á milli fyrirlestra þar sem m.a. var rætt hvernig þeir gætu nýtt þessa þekkingu í sínu umhverfi.

Af ofangreindu má sjá að farið var yfir mikið efni en margt á þó eftir að kynna. Í október verður haldin önnur ráðstefna á sama stað þar sem fleiri atriði verða kynnt og farið dýpra í þá þætti sem þátttakendur og stjórnarmeðlimir Vilniaus Viltis óska eftir.

Fyrirlesarar á ráðstefnunni í maí voru Þóra Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri, Hrefna Sigurðardóttir ráðgjafi, Sigurbjörg Sverrisdóttir forstöðumaður í Stjörnugróf og Þórhildur Garðarsdóttir forstöðumaður Vinnu/virkni og starfsmannamála í búsetu.

Kernave Crop