02.01.2024
Markmið virknihópa er að auka fjölbreytni og að fólk upplifi ánægju í daglegu starfi. Lögð er áhersla á þátttöku í samfélaginu, að þátttakendur fái tækifæri til að tengjast öðrum og jafnvel endurnýja kynni við gamla félaga. Áherslur virknihópa geta verið mismunandi, s.s. hreyfing, þátttaka í skapandi starfi eða endurvinnsla. Allt starfsfólk Vinnu og virkni getur valið virknitilboð og fór valið fram á vinnustöðunum að þessu sinni. Úthlutað var fyrir áramót og ættu allir umsækjendur að hafa fengið upplýsingar um sína úthlutun.
Virknihópar vorannar hefjast í janúar 2024 og dreifast fram í maí auk þess sem gróðurhúsið er starfrækt í allt sumar.
Virknihóparnir eru með nokkuð hefðbundnu sniði að þessu sinni. Við hófum samstarf við Dansfélagið Hvönn á síðustu önn og mun sú samvinna halda áfram. Einnig var hópnum Heimsókn og félagsstarf í Stjörnugróf hleypt af stokkunum á síðustu önn, er hann ætlaður fólki úr Ögurhvarfi. Nær sá hópur yfir á nýárið því síðustu þrír tímarnir verða janúar. Fyrir var virknihópurinn Heimsókn og félagsstarf í Ögurhvarfi fyrir fólk úr Stjörnugróf og hefur sá hópur verið afar vinsæll.
Á heimasíðu félagsins má finna nánari upplýsingar um virknihópana vorannar 2024 hér.