Skip to main content
search
0

 

Heildarstefna 2015 – 2025

Ás styrktarfélag er hagsmunafélag sem sinnir bæði rekstri á þjónustu og hagsmunabaráttu fyrir fatlað fólk.

Virði félagsins kemur fram í aukinni samfélagsþátttöku fatlaðs fólks, sjálfstæði þess og nýsköpun í þjónustunni. Félagið hefur frá upphafi haft það að markmiði að sýna frumkvæði og vera brautryðjandi með  áherslu á gæði og sveigjanleika. Lagt er upp úr gagnkvæmu trausti og að virðing ríki í öllu samstarfi innan sem utan félags.  Samstarfi við aðra aðila í samfélaginu eru engin takmörk sett sé það í takti við tilgang og stefnu félagsins og með samþykki stjórnar eftir því sem við á hverju sinni.

Félagið lítur til ríkjandi hugmyndafræði í samfélaginu hvað varðar útfærslur í rekstri, þjónustu og öðrum verkefnum. Leitast er við að mæta þörfum fólks og skapa aðstæður til að það hafi frelsi til að taka eigin ákvarðanir og lifa sjálfstæðu lífi.

Með nýsköpun og frumkvöðlastarfi er leitast við að finna bestu lausnir með hagsmuni notenda að leiðarljósi. Aflað er nýrrar þekkingar innanlands og erlendis með því að fylgjast með nýjustu rannsóknum og þróun. Þekkingin er nýtt til að víkka sjónarhorn og setja af stað verkefni sem nýtast sem flestum.

Hvatt er til þess að starfsmenn og félagsmenn komi hugmyndum að nýrri þjónustu eða verkefnum á framfæri eftir því sem þeir telja þörf fyrir hverju sinni. Stuðningur stjórnar og stjórnenda felst í að skoða og meta hverju er hægt að koma í framkvæmd og hverju ekki. Matið er unnið í takti við hugmyndafræði á hverjum tíma og starfsemi félagsins. Eignarhald verkefna  er félaginu ekki mikilvægt sé það betur komið í höndum annarra. Lögð er áhersla á samstarf við aðstandendur og nærþjónustu í gegnum stuttar boðleiðir.

Félagið starfar á landsvísu óháð þeim skorðum og hindrunum sem landamæri sveitarfélaga setja. Mikilvægt er að setja sig í spor annarra, komast reglulega upp úr hjólförunum og vera með lausnamiðaða hugsun í öllum aðstæðum. Alltaf er horft á hagsmuni notandans með virðingu og val að leiðarljósi.

Þann 12. mars 2015 samþykkti stjórn félagsins stefnu til 2025.