Skip to main content
search
0

 

Við hjá Ási styrktarfélagi lýsum því yfir, að hvorki einelti eða annað ofbeldi verður liðið hjá félaginu.

Hjá Ási styrktarfélagi er lögð áhersla á að fólk sýni hvort öðru gagnkvæma virðingu og að fólk vinni saman að því að skapa öruggt starfsumhverfi og jákvæðan starfsanda.

Almennt

Öllum hlutaðeigandi aðilum sem starfa eða nýta þjónustu Áss styrktarfélags skal tryggt öruggt umhverfi og virðing. Í því felst að þurfa ekki að þola einelti, áreitni eða annars konar ofbeldi í störfum sínum í tengslum við starfsemina líkt og segir til um í jafnréttisáætlun. Stjórn Áss styrktarfélags og framkvæmdastjóri bera ábyrgð á aðgerðaráætlun og úrræðum fyrir hlutaðeigandi aðila, þ.e. starfsfólk og notendur þjónustunnar.

Starfsfólk Áss styrktarfélags  leitar til næsta yfirmanns, mannauðsstjóra, eða öryggistrúnaðarmanns ef hvers kyns mál er varða einelti, áreitni eða annars konar ofbeldi koma upp. Jafnframt er hægt að tilkynna mál í gegnum Atvik*, sem er atvikaskrá frá VÍS.

Hægt er að leita ráðgjafar hjá stéttarfélagi, en stéttarfélag aðhefst ekki í einstökum málum.

Notendur þjónustu Áss styrktarfélags geta leitað til forstöðumanns, ráðgjafa eða réttindagæslumanns ef hvers kyns mál er varða einelti, áreitni eða annars konar ofbeldi koma upp. Notendur þjónustu geta fengið aðstoð starfsmanns við skráningu í gegnum Atvik*.

*Tilkynningar í gegnum Atvik, merktar einelti, ofbeldi eða kynferðislega áreitni berast eingöngu til mannauðsstjóra og geta verið undir nafni eða nafnlausar.

Skilgreiningar á einelti, kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi

Samkvæmt Reglugerð nr.1009 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Einelti er síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Kynferðisleg áreitni er hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Kynbundin áreitni er hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Ofbeldi er hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáningar þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.

Einelti

Dæmi um birtingamyndir eineltis

Einelti er niðurlægjandi og særandi. Það getur bæði falist í því sem gert er og því sem látið er ógert. Einelti getur tekið á sig ýmsar myndir t.d:

  • Að starf, hæfni og verk starfsmanns/þátttakanda í starfi eru lítilsvirt.
  • Að draga að ástæðulausu úr ábyrgð og verkefnum.
  • Að gefa ekki nauðsynlegar upplýsingar.
  • Særandi athugasemdir.
  • Rógur eða útilokun frá félagslegum samskiptum.
  • Árásir á einstaklinga eða gagnrýni á einkalíf þeirra.
  • Að skamma einstaklinga eða gera þá að athlægi.
  • Líkamlegar árásir eða hótanir um slíkt.
  • Fjandskapur eða þögn þegar spurt er eða fitjað upp á samtali.
  • Móðgandi símtöl.
  • Lítilsvirðandi texti í tölvupósti eða öðrum skriflegum sendingum.
  • Óþægileg stríðni.
  • Niðurlæging eða auðmýking, t.d. vegna aldurs, kynferðis eða þjóðernis.
  • Þöggun

Ef þú telur þig hafa orðið fyrir einelti:

Starfsfólk Áss styrktarfélags  leitar til næsta yfirmanns, mannauðsstjóra, eða öryggistrúnaðarmanns ef hvers kyns mál er varða einelti, áreitni eða annars konar ofbeldi koma upp. Jafnframt er hægt að tilkynna mál í gegnum Atvik*, sem er atvikaskrá frá VÍS.

Hægt er að leita ráðgjafar hjá stéttarfélagi, en stéttarfélag aðhefst ekki í einstökum málum.

Notendur þjónustu Áss styrktarfélags geta leitað til forstöðumanns, ráðgjafa eða réttindagæslumanns ef hvers kyns mál er varða einelti, áreitni eða annars konar ofbeldi koma upp. Notendur þjónustu geta fengið aðstoð starfsmanns við skráningu í gegnum Atvik*.

*Tilkynningar í gegnum Atvik, merktar einelti, ofbeldi eða kynferðislega áreitni berast eingöngu til mannauðsstjóra og geta verið undir nafni eða nafnlausar.

Þú velur þá leið sem þér líður best með.

Ef þú verður vitni að einelti:

Hafðu góða starfshætti Áss styrktarfélags í huga, sjá hér. Talaðu við geranda/gerendur, ef þú treystir þér til, og láttu þá vita að þér finnist hegðun viðkomandi vera einelti. Þú getur jafnframt hvatt þolanda til þess að tilkynna málið.

Þú getur farið eftirfarandi leiðir til að koma málinu í réttan farveg:

  • Leitað til næsta yfirmanns, mannauðsstjóra, eða öryggistrúnaðarmanns.
  • Jafnframt er hægt að tilkynna mál í gegnum Atvik, sem er atvikaskrá frá VÍS.
  • Þú velur þá leið sem þér líður best með.

Næstu mögulegu skref

  • Yfirmaður/mannauðsstjóri leitar upplýsinga hjá tilkynnanda og honum veittur stuðningur með trúnaðarsamtali eða ráðgjöf. Aðrir aðilar eru ekki upplýstir um málið nema með samþykki tilkynnanda.
  • Gera meintum geranda/gerendum grein fyrir því að um einelti sé að ræða og breyttrar hegðunar sé krafist.
  • Ef málsaðilar sættast á það má kalla þá saman í ráðgjöf með fagaðila, og ákvarða í sameiningu hvernig samskiptum verður háttað í framhaldinu.
  • Gerð er hlutlaus athugun, af óháðum fagaðilum, á málsatvikum. Athugun getur falið í sér að rætt er við málsaðila og aðra sem veitt geta upplýsingar um málið.
  • Þegar unnið hefur verið úr máli mun næsti yfirmaður eða mannauðsstjóri upplýsa hlutaðeigandi.

Kynferðisleg áreitni, kynbundið ofbeldi eða ofbeldi
Samkvæmt Reglugerð nr.1009 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Dæmi um birtingamyndir

Kynferðisleg áreitni, kynbundið ofbeldi eða ofbeldi getur birst sem óvelkomið áreiti, andlegt ofbeldi eða líkamlegt ofbeldi. Upplifun þess sem fyrir ofbeldi verður getur verið mjög misjöfn og er hún mælikvarðinn á alvarleika ofbeldisins.

Kynferðisleg áreitni, kynbundið ofbeldi eða ofbeldi einkennist oft af misnotkun á valdi eða stöðu, andlegri kúgun og að sjálfsvirðingu sé misboðið, framkomu sem ætlað er að knýja einstaklinga til undirgefni og gera lítið úr þeim, endurtekinni áreitni eða niðurlægingu fyrir þann sem  fyrir áreitninni verður og hefur neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu hans.

Kynferðisleg áreitni, kynbundið ofbeldi og ofbeldi geta tekið á sig ýmsar myndir, t.d.:

  • Dónalegir brandarar og kynferðislegar athugasemdir í máli, myndum eða skriflegum athugasemdum.
  • Óviðeigandi spurningum um kynferðisleg málefni.
  • Snertingu sem ekki er óskað eftir.
  • Endurteknum beiðnum um kynferðislegt samband sem mæta áhugaleysi eða er hafnað.
  • Hótun um nauðgun.
  • Nauðgun.
  • Líkamlegt ofbeldi, ógnandi hegðun eða nauðung

Ef þú verður fyrir áreiti eða ofbeldi

  • Getur þú leitað til lögreglu, sé málið þess eðlis.
  • Starfsfólk Áss styrktarfélags getur leitað til næsta yfirmanns, mannauðsstjóra, eða trúnaðarmanns stéttarfélags, ef hvers kyns mál er varða einelti, áreitni eða annars konar ofbeldi koma upp. Jafnframt er hægt að tilkynna mál í gegnum Atvik, sem er atvikaskrá frá VÍS.
  • Notendur þjónustu Áss styrktarfélags geta leitað til forstöðumanns, ráðgjafa eða réttindagæslumanns ef hvers kyns mál er varða einelti, áreitni eða annars konar ofbeldi koma upp. Notendur þjónustu geta fengið aðstoð starfsmanns við skráningu eftir þörfum.
  • Allt eftir því hvaða leið þér líður best með.
  • Ef þú treystir þér til; skráðu niður atburðarrásina, tímasetningar, hugsanleg vitni, hvað var sagt og gert, hvernig þú brást við og hver upplifun þín var.

Ef þú verður vitni að áreiti eða ofbeldi

Hafðu góða starfshætti Áss styrktarfélags í huga, sjá hér. Talaðu við geranda/gerendur, ef þú treystir þér til, og láttu þá vita að þér finnist hegðun viðkomandi vera óviðeigandi. Þú getur jafnframt hvatt þolanda til þess að tilkynna málið.

Þú getur farið eftirfarandi leiðir til að koma málinu áfram í réttan farveg:

  • Leitað til mannauðsstjóra, forstöðumanns eða öryggistrúnaðarmanns,
  • Jafnframt er hægt að tilkynna mál í gegnum Atvik, sem er atvikaskrá frá VÍS.
  • Þú velur þá leið sem þér líður best með.

Næstu mögulegu skref

  • Yfirmaður/mannauðsstjóri leitar upplýsinga hjá tilkynnanda og honum veittur stuðningur með trúnaðarsamtali eða ráðgjöf. Aðrir aðilar eru ekki upplýstir um málið nema með samþykki tilkynnanda.
  • Sé málið þess eðlis, er málinu vísað til lögreglu í samráði við þolanda/aðstandendur.
  • Gera meintum geranda/gerendum grein fyrir því að um óæskilega framkomu sé að ræða og breyttrar hegðunar sé krafist.
  • Ef málsaðilar sættast á það má kalla þá saman í ráðgjöf með fagaðila, og ákvarða í sameiningu hvernig samskiptum verður háttað í framhaldinu.
  • Gerð er hlutlaus athugun, af óháðum fagaðilum, á málsatvikum. Athugun getur falið í sér að rætt er við málsaðila og aðra sem veitt geta upplýsingar um málið.
  • Þegar unnið hefur verið úr máli mun næsti yfirmaður eða mannauðsstjóri upplýsa hlutaðeigandi.

Málsmeðferð

Ef tilkynning eða ábending berst um einelti, áreitni eða ofbeldi er brugðist við samkvæmt þessari aðgerðaráætlun.

Meðferð upplýsinga

Allar upplýsingar eru meðhöndlaðar sem trúnaðarmál og eru skrifleg gögn varðveitt á öruggum stað á ábyrgð atvinnurekanda. Aðgangur að gögnum er veittur hlutaðeigandi starfsmönnum eftir því sem viðeigandi er og eftir því sem lög um persónuvernd heimila.

Málsatvik er varða einstakling sem ekki er starfsmaður eða notandi þjónustu Áss

Ef upp koma mál er varða einstakling/a sem ekki er starfsmaður Áss en samskipti eiga sér stað í tengslum við starfsemi félagsins er unnið samkvæmt aðgerðaráætlun þessari og stuðningur veittur tilkynnanda og gripið til varna til þess að slíkt komi ekki upp aftur. Ráðstafanir og aðgerðir eru til þess fallnar að verja starfsfólk og notendur þjónustunnar.

Aðgerðaráætlun þessi var unnin af ráðgjöfum Siðferðisgáttarinnar www.sidferdisgattin.is í samvinnu við Ás.

Síðast endurskoðað 25.04.2023

Bent er á eftirfarandi efni:

Innri gögn

  • Jafnréttisáætlun
  • Góðir starfshættir

Ytri gögn