Skip to main content
search
0

Þjónandi leiðsögn – staða innleiðingar og ráðstefna í Ghent

Fréttamynd - Islendingar A Radstefnu Um Thl I Ghent

Í ársbyrjun 2017 tók Ás styrktarfélag ákvörðun um að innleiða þjónandi leiðsögn á allar sínar starfsstöðvar. Frá þeim tíma hafa tæplega 80 starfsmenn setið þriggja daga innleiðingarfræðslu og nú stendur yfir mentoraþjálfun sem 20 starfsmenn sitja. Þegar henni lýkur í vor verða komnir mentorar á allflestar starfsstöðvar félagsins.

 

Alþjóðlega ráðstefnan um þjónandi leiðsögn var haldin í Ghent í Belgíu 17. til 19. september. Þátttakendur voru alls ríflega 280, en um 80 þeirra komu frá Íslandi þar af 17 frá Ási styrktarfélagi.

 

Titill ráðstefnunnar að þessu sinni var „The Relationship in Support and Care“ sem mætti þýða sem „Tengslin í stuðnings- og umönnunarstörfum“. Í þjónandi leiðsögn er það grundvallaratriði að mynda samband við þá einstaklinga sem verið er að þjónusta, en aðeins með því að mynda tengsl við viðkomandi er hægt að byggja upp það traust sem er nauðsynlegt til þess að honum líði vel og hann nái að blómstra í því sem hann er að gera. Það er auðvelt að tengja yfirskrift ráðstefnunnar í Ghent við þungamiðju þjónandi leiðsagnar sem hljómar svona: „Tilgangur samskipta okkar er að með samveru verði til jákvæð upplifun sem einkennist af kærleika, hlýrri nærveru og þátttöku í samfélaginu“. Að mynda tengsl og stuðla að þátttöku í samfélaginu er eitt af höfuðmarkmiðum þjónandi leiðsagnar.

 

Að venju var það þannig að margir fyrirlestranna á ráðstefnunni komu inn á yfirskriftina með einum eða öðrum hætti, en þó ekki allir. Efnisskráin var mjög fjölbreytt og fyrirlesarar nálguðust viðfangsefnið frá mismunandi sjónarhornum. Margir sögðu frá reynslu sinni af því að vinna eftir þjónandi leiðsögn, aðrir tóku fyrir sérstök viðfangsefni sem tengjast þjónandi leiðsögn og enn aðrir skoðuðu þjónandi leiðsögn út frá fræðilegum sjónarhornum: læknisfræðilegum, sálarfræðilegum og heimspekilegum. Einnig var í fáeinum tilfellum fjallað um þjónustu við fatlað fólk almennt.

 

Á heildina litið var ráðstefnan mjög gagnleg og gefandi. Ekki bara vegna fyrirlestranna sem margir voru góðir, heldur líka vegna þeirra tengsla sem myndast við að hitta fólk víða að. Það er alltaf gott að bera saman bækur og deila reynslu.

 

Glærur frá mörgum fyrirlestranna á ráðstefnunni má nálgast hér.

 

Myndin sem fylgir fréttinni er af hluta Íslendinganna sem tóku þátt í ráðstefnunni.