Skip to main content
search
0

Þjónandi leiðsögn dagar 2025

Dagana 26. – 28. febrúar voru hinir árvissu Þjónandi leiðsögn dagar hjá Ási styrktarfélagi. Þeir voru nýttir í að fræðast um grunnstoðir og verkfæri Þjónandi leiðsagnar, en jafnframt til að gera eitthvað skemmtilegt saman. Þema daganna að þessu sinni var öryggi sem er ein af grunnstoðunum. Það er afar mikilvægt að allir upplifi öryggi bæði á heimilum og vinnu- og virknistöðum félagsins. Að upplifa öryggi þýðir að finna innri ró og vera laus við ótta og að þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að einhver eða eitthvað muni ógna þér, hræða þig eða meiða.

Við fórum líka yfir verkfærin fjögur; orð, augu, hendur og nærveru. Á Vinnu- og virknistöðum félagsins var sérstök hátíðarútgáfa af Tökum lagið virknihópnum. Við komum saman í matsalnum í Ögurhvarfi og Bjarkarási og sungum saman, bæði leiðbeinendur og starfsfólk. Það er grundvallarmál á Þjónandi leiðsögn dögum að öllum sé boðið að vera með. Við tókum meðal annars lög um vináttuna og það var vel tekið undir á báðum stöðum.

Á Þjónandi leiðsögn dögunum var kynnt nýtt verkefni sem tveir af þjónandi leiðsögn mentorum félagsins Guðný Sigurjónsdóttir og Heba Bogadóttir hafa umsjón með, en það er spilastokkurinn Gullkorn þjónandi leiðsagnar. Hann verður unninn í samstarfi við leiðbeinendur og starfsfólk á öllum starfsstöðvum félagsins. Nánari upplýsingar um Gullkornin koma síðar, en stefnt er að því að kynna útkomuna á þjónandi leiðsögn dögum 2026.

Það voru líka spilastundir inni á vinnusvæðunum þessa daga, en við notuðum spurningaspilið Spurt & svarað og hláturinn glumdi um króka og kima.

Á föstudeginum var svo hið sívinsæla Þjónandi leiðsögn bingó. Það gengur út á að fylla út reiti á bingóspjaldi sem tengjast þjónandi leiðsögn og að fá fólk sem uppfyllir ákveðin skilyrði til að kvitta. Í ár þurfti t.d. að finna einhvern sem býr í Hafnarfirði, gefa honum fimmu og láta hann svo kvitta. Í síðdegiskaffinu voru dregnir út vinningar úr útfylltum spjöldum.

Þjónandi leiðsögn dagarnir 2025 heppnuðust mjög vel. Tilgangurinn var bæði að rifja upp og fjalla um Þjónandi leiðsögn, hugmyndir á bakvið hana og aðferðirnar sem við notum. Ekki síður að brjóta upp hversdagsleikann og gera eitthvað skemmtilegt saman, eitthvað sem tengir okkur og sameinar.

Eldri fréttir frá félaginu