04.06.2024
Í apríl fór fram starfsdagur leiðbeinanda í Vinnu og virkni.
Leiðbeinendur í Stjörnugróf byrjuðu daginn á upplýsingafundi og innra starfi fram að hádegi. Eftir hádegi var hópnum skipt upp. Hluti hópsins heimsótti Fjölsmiðjuna á Akranesi, annar hluti heimsótti Vinnu og virknimiðstöð Reykjavíkur (sem inniheldur Iðjuberg, Ópus, Smiðjuna og SmíRey). Þriðji hópurinn heimsótti hæfingastöðvarnar við Bæjarhraun og Dalveg og sá fjórði fór og heimsótti Hæfó í Reykjanesbæ. Starfsfólk frá Lyngás leikskóladeild heimsótti leikskólann Víðivelli. Að starfsdegi loknum sameinuðust leiðbeinendur aftur í Stjörnugróf og skemmtu sér saman í ratleik.
Leiðbeinendur í Ási vinnustofu fóru í heimsókn á tvo staði. Annars vegar Sólheima í Grímsnesi og hins vegar Viss Vinnu og hæfingarstöð á Selfossi. Á Sólheimum tóku þroskaþjálfarnir Karen og Halli á móti hópnum og kynntu þá þjónustu og verkefni sem unnin eru þar. Kíkt var í vinnustofurnar (trésmiðju, kertagerð, leirgerð, vefstofu og listasmiðju). Gróðurhúsið Sunna var heimsótt en þar fer fram lífrænt vottuð ræktun á tómötum, agúrku, paprikum og salati og að sjálfsögðu endaði heimsóknin í versluninni þeirra. Þá lá leiðin í Viss á Selfossi þar sem Ragnhildur forstöðukona tók á móti hópnum og kynnti fyrir þeim hvaða verk eru unnin þar s.s. við innpökkun, trésmiðju og textíl.