Frá árinu 2017 hefur Ás styrktarfélag tekið þátt í Erasmus+ verkefni í samvinnu við Reykjavíkur Akademíuna vegna stafrænnar sögugerðar (Digital storytelling – empowerment through cultural integration eða DigiPower).
DigiPower byggir á hugmyndafræði Joe Lambert og félaga um stafræna sögugerð (digital storytelling). Aðferðinni er ætlað að valdefla (empower) þá sem eru lítið sýnilegir til þess að koma rödd sinni á framfæri.
Árið 2017 fóru tveir einstaklingar með þroskahömlun ásamt tveimur aðstoðarmönnum á vinnustofu í stafrænni sagnagerð sem haldin var á Ítalíu. Markmið vinnustofunnar var að athuga hvernig stafrænar sögur gætu nýst í starfi með fólki með þroskahömlun. Talið var að verkefnið félli vel að markmiðum vinnu & virkni hjá félaginu.
Árið 2019 fór aftur af stað samstarf milli Reykjavíkur Akademíunnar og Áss um samevrópskt verkefni á vegum Erasmus+. Verkefnið er unnið í framhaldi af því fyrra og ber heitið Stafræn sögurgerð til valdeflingar fyrir fólks fötlun (e. Digital Storytelling for up-skilling and empowerment of learners with intellectual disabilities eða DigistorID).
Aðalmarkmið þessa verkefnisins er að þróa nýja námsaðferð með því að aðlaga aðferð stafrænna frásagna að þörfum fólks með þroskahömlun. Haustið 2019 fóru Brynjar, Guðný og Heba starfsmenn frá Ási til Danmerkur. Þar voru þau þjálfuð í því að halda vinnustofu í stafrænni sögugerð. Þau má sjá á myndinni sem fylgir fréttinni – ánægð með vinnustofuna.
Þessi vinnustofa var undirbúningur fyrir vinnu næstu mánaða. Fyrirhugað er að þrjár vinnustofu verði haldnar. Á Ítalíu í nóvember 2019, í Litháen í janúar 2020 og í Slóveníu í mars 2020. Á hverja vinnustofu munu 2 úr hópi fatlaðs fólks fara með 2 aðstoðarmenn. Við leyfum ykkur að fylgjast með eftir því sem verkefninu vindur fram.