Skip to main content
search
0

Sindri Ploder og Guðrún Bergsdóttir taka þátt í samsýningu BROT AF ANNARS KONAR ÞEKKINGU

AUÐLESINN TEXTI

Sindri Ploder og Guðrún Bergsdóttir taka þátt í listasýningu BROT AF ANNARS KONAR ÞEKKINGU í Nýlistasafninu.

Sýningin opnar kl 17.00 (5) 26.janúar og er opin fram til 05.mars.

Allir velkomnir

_________________________________________________________________________________________________________________

Sindri Ploder listamaður og Guðrún Bergsdóttir myndlistakona (og starfsfólk  í Stjörnugróf) taka þátt í samsýningunni BROT AF ANNARS KONAR ÞEKKINGU í NÝLÓ (Nýlistasafninu) Grandagarði 20.

Sýningin opnar 26.janúar kl 17.00 og stendur fram til 05.mars.

Sýningin Brot af annars konar þekkingu stiklar á stóru í þriggja ára rannsóknarverkefninu og sýningarröðinni Annars konar þekking sem hófst í MeetFactory galleríinu í Prag, Tékklandi. Þemu sýningarinnar eru meðal annars andleg málefni; breytt ástand vitundar og hugvíkkandi efni; viska bundin við náttúru og samfélög fólks, „venjuleiki“ og stofnanavæðing; hugsun og reynsla miðluð með líkamanum; handverk og hæglætislífstíll tengdur því; heimssýn fólks með skyn- eða líkamlegar fatlanir; uppgötvun og ævintýri; gervigreind og síðast en ekki síst, listrænar rannsóknir sem sérstök tegund þekkingar.

Við hvetjum áhugasama til að nýta tækifærið og sjá verk Sindra á sýningunni.

Hér má lesa ágrip um Sindra sem kemur fram í lýsingu sýningarinnar

Sindri Ploder (f. 1997, Ísland) tók þátt í leikmyndahönnun fyrir tékkneska leikgerð af Skugga–Baldri eftir Sjón, sem sýnd var í Hafnarhúsinu þó nokkrum sinnum og var sýnd í Prag allt fram til 2022. Hann tók þátt í samsýningu skipulagðri af List án landamæra árið 2017 þar sem hann vann með hönnuðinum Munda Vonda. Þar voru teikningar Sindra notaðar á ullarmottu hannaða af Munda. Sindri tók þátt í List án landamæra 2019, 2020 og 2022, þar sem hann sýndi teikningar, ullarmottu og viðarskúlptúra. 2019 tók hann listaáfanga á vorönn í Myndlistarskólans í Reykjavík og var í kjölfarið með verk á samsýningu í skólanum. Hann hefur síðan verið í listnámi hjá Fjölmennt, samhliða vinnu í Bjarkarási. Sindri hefur alltaf notið þess að teikna, en það var ekki fyrr en um 12 ára aldurinn sem teikningarnar hans byrjuðu að taka á sig þá persónulegu mynd sem einkennir þær í dag. Hann hefur aðallega fengist við auðþekkjanlegar andlitsmyndir, einstakar og svipsterkar. Nýlega hefur hann gert tilraunir með viðarskúlptúra þar sem hann getur útfært andlitsformið í þrívídd. Hann hefur einnig unnið með keramík, mósaík, við og vefnað. Aðal aðferð hans er þó alltaf teikning með fínum filtpenna á pappír. Sindri eyðir frítíma sínum að mestu við að teikna og skapa, hvort heldur heima eða á servíettur í bílnum, á biðstofum eða á flugvöllum.

Hér er ágrip um Guðrúnu Bergsdóttur

Guðrún Bergsdóttir

Guðrún Bergsdóttir (f. 1970, Ísland) er myndlistarkona sem hefur haldið einkasýningar á verkum sínum í Gerðubergi, á Mokka og tekið þátt í samsýningum á Safnasafninu, Hafnarborg og nú síðast á Listasafni Reykjavíkur. Í kringum aldamótin byrjaði Guðrún að skapa sínar eigin myndir í stað þess að fylgja mynstrum, en áður hafði hún gert slíkar myndir með fínum filtpenna. Guðrún skissar ekki, heldur skapar verk sín beint á útsaumsflötinn, stærð strigans ákvarðar endimörk þeirra. Á myndfletinum er það svo þráður og nál sem elta hvort annað þar til myndin er tilbúin. Það er óvenjulegt að sjá útsaumsverk sem eru jafn lifandi og í tilfelli Guðrúnar. Myndirnar hennar eru með sterkan hrynjanda lita og forma, myndbyggingin er oft opin svo að hver myndheimur virðist hluti af stærri heild. Útsaumsverk Guðrúnar eru nátengd málverkum, með lífræn form, lifandi línu og fjölbreytt litróf.

Eldri fréttir frá félaginu