18.06.2024
Hjördís Kristjánsdóttir eða Dísa hélt nýverið myndlistasýningu í Lækjarás og af því tilefni skrifaði Sara Björnsdóttir eftirfarandi texta:
Fljótlega eftir að ég byrjaði að vinna á Lækjarási gaf brosandi hvítklædd kona mér litríka blómateikningu, áritaða Dísa K. „Þú mátt eiga þetta, þetta er fyrir þig,“ sagði hún og fékk mig samstundis til að finnast ég velkomin. Næstu vikur sá ég Dísu teikna og lita blóm daglega og gefa þau öðrum af örlæti. Ég áttaði mig fljótt á því að ég var ekki sú eina sem geymdi blómin sem hún gaf mér.
Fyrir nokkrum vikum kom einhver með þá hugmynd að Dísa gæti haldið sýningu á teikningum sínum og við gætum unnið að því verkefni saman. Við kölluðum hana „100 blóm Dísu“ Í tæpar fjórar vikur einbeitti hún sér að því að teikna og geyma blómamyndir. Dag einn kom stofustjóriannarrar stofu með búnka af teikningum eftir Dísu og samanlagt voru þær þá orðnar 111.
Þann 23. maí, sýningardaginn, mætti Dísa í marglitum, blómamynstruðum kjól sem smell passaði við þemað. Bökuð var kaka henni til heiðurs og voru öll 111 blómin til sýnis á veggjum matsalar Lækjaráss sem stundum þjónar sem gallerí. Vel var mætt bæði frá Bjarkarási og Lækjarási og dáðust allir að einstökum persónuleika hvers blóms, því þrátt fyrir svipaða lögun var ekkert þeirra eins. Blómin prýða veggina eins og fagurt tún og gleður alla sem sjá þau.