Skip to main content
search
0

Helga Matthildur Viðarsdóttir listamaður List án landamæra 2020

Fréttamynd - 119568967 902560440269555 6835003645706776432 N

Í dag var tilkynnt hver væri næsti listamaður listahátíðarinnar List án landamæra 2020. 

 

Í ár er það Helga Matthildur Viðarsdóttir, starfsmaður Áss og óskum við henni hjartanlega til hamingju með þann heiður. 

 

Fyrsta einkasýning á verkum Helgu Matthildar verður opnuð í Listasal Mosfellsbæjar föstudaginn 23. október 2020 og verður opin til 13. nóvember 2020.

 

Hér má lesa texta úr fréttatilkynningu frá listahátíðinni: 

 

Helga Matthildur Viðarsdóttir er fædd árið 1971 og býr í Reykjavík. Hún hefur unnið að list sinni í nokkur ár undir handleiðslu listkennara hjá Ás Styrktarfélagi þar sem hún hefur starfað í um 30 ár. Þar hefur hún sótt vatnslitanámskeið og námskeið í textíl og teikningu. Hún fæst við myndlist daglega af mikilli elju og áhuga, og skapar fjölda teikninga í hverri viku.

Það er mikil hreyfing og kraftur í verkum Helgu, sterkar línur og form sem gjarnan eru mjög þétt og fylla út í myndflötinn. Hún hefur sérstaklega gott næmi fyrir uppbyggingu myndflatarins, hrynjandi og ‚þögnum’ í teikningunni, svo notast sé við líkingamál úr tónlist. Hún notar gjarnan sterka liti og í myndunum bregður gjarnan fyrir andlitum og byggingum, sem gefa frá sér nokkurskonar geisla, sem streyma svo út fyrir myndflötinn og til áhorfenda mynda hennar.

 

Einkennismynd Helgu fyrir hátíðina gæti allt eins verið einkennismynd fyrir árið 2020, nokkurskonar Corona-veira sem hér fær á sig andlit. Þetta andlit er ekki beint glaðlegt þótt litirnir séu fallegir. En, litríka veiran/veran sem birtist í verki Helgu gefur okkur von um að hægt verði að vingast við hana, lifa með henni og vonandi vinna bug á henni með því að taka höndum saman, sem er hið stóra verkefni er árið 2020 felur heimsbyggðinni.

 

Ljósmyndina af Helgu Matthildi tók Guðmundur Skúli Viðarson ljósmyndari, bróðir hennar.

 

119536252 2495371180761048 5698383790179745584 N