Skip to main content
search
0

Heimsókn frá Þýskalandi

Fréttamynd - 65725138 392769558031052 144406713276039168 N

Í síðustu viku heimsótti 10 manna hópur frá Lichtenberger werkstätten gemeinnützige í Berlín starfsfólk Áss vinnustofu. Þetta var blandaður hópur af leiðbeinendum og starfsfólki með þroskahömlun sem kom til landsins á Erasmus styrk til að kynna sér starfsemi í okkar geira hérlendis. Þau eyddu fyrstu dögunum á Sólheimum í Grímsnesi, fóru svo til Akureyrar og enduðu á því að heimsækja Ás í fjóra daga.

 

Á þeim tíma tóku þau virkan þátt í vinnuverkefnum á öllum þremur svæðunum í Ögurhvarfi og skoðuðu gróðurhúsið og aðra starfsemi í Stjörnugróf. Að auki var skipulögð dagskrá þar sem hópur fatlaðra starfsmanna og leiðbeinenda frá Ási fór með þeim í nokkrar vettvangsferðir. Það var m.a. farið í Laugardalinn, í sund, á Listasafn Reykjavíkur, í Hörpu og Ráðhúsið. Hópurinn fór líka í dagsferð um Reykjanes og endaði á því að skoða sýninguna Undur íslenskrar náttúru í Perlunni.

 

Þessi heimsókn var afar ánægjuleg bæði fyrir okkur í Ási og þýsku gestina. Starfsfólk Áss hafði orð á því hvað það hafi verið fróðlegt og skemmtilegt að fá að kynnast gestunum og Þjóðverjarnir voru sömuleiðis mjög sáttir. Þeir höfðu sérstaklega orð á því hvað það var vel tekið á móti hópnum og dagskráin vel skipulögð.