Skip to main content
search
0

Fréttir af Project SEARCH verkefninu

Í júní undirritaði Ás styrktarfélag samstarfssamning við Landspítala háskólasjúkrahús um verkefnið Project SEARCH. Landspítalinn leggur til aðstöðu til starfsnáms og veitir þátttakendum tækifæri til að öðlast færni og sjálfstraust til að starfa jafnfætis öðru fólki á almennum vinnumarkaði.

Við erum ánægð með að Landspítalinn hafi ákveðið að stíga skrefið og taka þátt í verkefninu með okkur og verða þar með í fararbroddi við að greiða götur fatlaðs fólks að atvinnu og jafnframt sýna fram á að það er fært um að vinna mikilvæg og flókin, störf til jafns við aðra.

Í júní var boðað til kynningarfundar fyrir mögulega umsækjendur og opnað fyrir umsóknir. Í byrjun september komu forsvarsmenn Project SEARCH í sína aðra heimsókn til Íslands og aðstoðuðu við inntökupróf og inntökuferli. Einnig var lögð lokahönd á skipulag kennslunnar og annan nauðsynlegan undirbúning.

Þann 19. september hófu 6 manns starfsnám á spítalanum sem stendur yfir næstu 9 mánuði. Það er ljóst að fyrir höndum eru mjög spennandi tímar.

Með fréttinni er mynd af fundi með forsvarsmönnum Projcect SEARCH, þeim Erin og Susie og starfsmönnum Áss þeim Valgerði og Petru.

Eldri fréttir frá félaginu