Ás styrktarfélag er almannaheillafélag með þjónustu við fatlað fólk og hefur í gegnum árin komið á fót umfangsmiklum rekstri. Þá hefur félagið notið velvilja og hafa einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki átt drjúgan þátt í að styðja félagið til vaxtar. Í dag veitir Ás styrktarfélag rúmlega þrjú hundrað manns þjónustu í formi búsetu, dagþjónustu og vinnu. Starfsmenn félagsins eru rúmlega 400 í tæplega 300 stöðugildum.
Félagið gerir þjónustusamninga við sveitarfélög sem tryggja fjármagn til rekstursins. Í dag eru gildir samningar við Reykjavík, Kópavog, Hafnarfjörð, Mosfellsbæ, Seltjarnarnes og Garðabæ.
Að auki er mikilvægt fyrir félagið að afla eigin tekna sem nota má til nýsköpunar og verkefna. Þannig getur félagið stuðlað að áframhaldandi uppbyggingu í málaflokknum með því fé sem það aflar með sölu minningarkorta, gjöfum frá fyrirtækjum og styrktaraðilum, auk félagsgjalda frá félagsmönnum sem nú eru tæplega 700 á skrá.
Ás styrktarfélag er í góðu samstarfi við helstu þjónustu- og hagsmunaaðila. Félagið er aðili að Landssamtökunum Þroskahjálp, Öryrkjabandalagi Íslands og Hlutverki, samtökum um vinnu og verkþjálfun.