Í dag, 3.Desember beinum við sjónum að þema ársins hjá Sameinuðu þjóðunum: Aukin þátttaka fatlaðs fólks er forsenda félagslegra framfara.
Þrátt fyrir mörg mikilvæg skref í rétta átt stendur fatlað fólk enn frammi fyrir verulegum hindrunum víða um heim. Tölurnar tala sínu máli; fatlað fólk er líklegra til að búa við fátækt, mæta misrétti á vinnumarkaði og upplifa að velferðarkerfi grípi ekki nægilega vel utan um þarfir þess. Þá skortir oft á að virðing sé borin fyrir sjálfræði einstaklinga og rétti þeirra til að stjórna eigin lífi.
Kjarni málsins, sem forystumenn Sameinuðu þjóðanna leggja áherslu á, er einfaldur: Við náum ekki raunverulegum félagslegum framförum nema allir séu með í ráðum. Að tryggja fulla þátttöku fatlaðs fólks í öllum þáttum samfélagsins er ekki aðeins réttlætismál, heldur ómissandi grunnur að réttlátara og sjálfbærara samfélagi.
Stefna SÞ um þátttöku fatlaðs fólks (United Nations Disability Inclusion Strategy) er leiðarljós í þessu starfi. Hún felur í sér skuldbindingu um að SÞ leiði með fordæmi og leggi sig fram við að ryðja öllum hindrunum úr vegi. Markmiðið er skýrt: Að skapa samfélag þar sem enginn er skilinn eftir og allir fá tækifæri til að nýta hæfileika sína í samræmi við jöfn mannréttindi okkar allra.