Skip to main content
search
0

Opnun á listsýningu Snorra Ásgeirssonar

08.10.2024

Snorri Ásgeirsson heiðurslistamaður List án landamærar 2024 opnar einkasýningu í Gallerý Fold laugardaginn 12.október kl 17.00.

Sýningin stendur til 02.nóvember. Aðgengi að sýningunni er gott (GRÆNT). Sýningin er á jarðhæð og engar tröppur við inngang. Næsta bláa bílastæði er handan við hornið á Grettisgötu.

Hér er hlekkur á Facebook viðburðinn


Snorri Ásgeirsson er fæddur í Reykjavík 1952. Hann byrjaði að fást við myndlist fyrir um 25 árum síðan í listasmiðju Bjarkarás. Upphaflega teiknaði hann myndir í leirskálar sem voru af því loknu brenndar í ofni. Skálar Snorra vöktu strax athygli fyrir sérstakt myndmál og vald á myndbyggingu en í framhaldinu fór Snorri að teikna með litblýanti á pappír sem hann gerir enn í dag.

Snorri hefur tekið þátt í mörgum sýningum á vegum „ List án landamæra „ m.a. í Listasal Mosfellsbæjar 2013 ásamt Helga Þorgils Friðjónssyni myndlistarmanni. Á yfirlitssýningu Snorra í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi í Reykjavík 2020 var gefin út bók með úrvali af myndum síðustu 10 ára en á þessu tímabili hafði myndlist hans þróast og víkkað til muna. 2022 tók Snorri þátt í sýningarröðinni Umhverfing 4 ásamt Halldóri bróðir sínum í Ólafsdal í Dölunum en þeir tengjast staðnum í föðurætt.

Myndheimur Snorra er dulur og næmur, í fyrri myndum hans sjáum við hulduhóla þar sem fólkið býr og sólin skín en stílfærð ský, hús og manneskjur í yfirstærðum standa fyrir utan í hinum sýnilega heimi. Síðar fóru að birtast nýir og afstæðir heimar í myndum Snorra, litsterkir og dulúðlegir í senn og tjáning hans er orðin margvíslegri og agaðri en áður. Frá 2020 hefur Snorri nær einvörðungu einbeitt sér að strika teikningum sem eru í senn litríkar og taktvissar þar sem ýmsar stemmingar og huldir vættir kunna að leynast þegar betur er að gáð.

Texti frá Halldóri Ásgeirssyni.