15.01.2024
Síðastliðið haust fór af stað skemmtilegt verkefni í samstarfi Vinnu og virkni staða félagsins og Flóttamannateymis Rauðakross Íslands.
Verkefnið snýst um samfélagslega þátttöku þar sem flóttafólki er gefinn kostur á að kynnast íslensku samfélagi betur.
Í upphafi kom 20 manna hópur flóttafólks frá Venesúela, Úkraínu og Sýrlandi í heimsókn í Stjörnugróf. Þau buðu starfsfólki í Vinnu og virkni að smakka fjölda rétta frá sínum heimalöndum. Þau sýndu þjóðdansa og buðu starfsfólki að taka þátt, sungu sönga og mikil gleði ríkti.
Nokkru síðar bauð starfsfólk í Stjörnugróf hópnum aftur í heimsókn og í þetta skiptið stóð til boða að smakka íslenska rétti. Starfsmaður í Grófinni byrjaði daginn og stýrði morgunleikfimi, hópurinn fékk leiðsögn um starfsstaðinn og kynningu á starfseminni. Að lokum tók einn leiðbeinandi og einn starfsmaður jólaeinsöng. Mikil gagnkvæm ánægja var með heimsóknina og allir skemmtu sér vel.
Á nýju ári er fyrirhugað að starfsfólk í Ási vinnustofa taki á móti hópnum og sýni þeim starfsemina.