Skip to main content
search
0

Fræðsluáætlun hefur verið birt

Á haustin er fræðsluáætlun Áss birt. Félagið heldur uppi öflugu fræðslustarfi og á dagskrá eru meðal annars forvarnanámskeið, nýliðafræðsla, táknmálskennsla, grunn- og upprifjunarnámskeið í skyndihjálp og áframhaldandi innleiðing á Þjónandi leiðsögn.

Fyrr á árinu var gerður samningur við Deloitte um að sinna hlutverki Persónuverndarfulltrúa. Eitt af verkefnum hans er að sinna fræðslu og hafa stjórnendur félagsins og leiðbeinendur í Vinnu og virkni fengið sína fyrstu fræðslu. Fyrirhugað er að starfsfólk í búsetu fái fræðslu um persónuvernd á starfsdegi 12.október.

Sömuleiðis var gerður samningur við Akademias um aðgang að rafrænni fræðslu til eins árs.

Samkvæmt mannauðsstefnu Áss er mikilvægt að starfsmenn hafi aðgang að sí- og endurmenntun. Fræðsla er hluti af starfsþróun og þannig tileinkar fólk sér nýungar og verður gagnrýnni á eigin viðhorf og vinnu. Mannauðsstjóri ber ábyrgð á fræðslumálum, fræðslunefnd heldur utan um skipulag og samstarf er við forstöðumenn um efnisval og útfærslu.

Markmiðið með því að bjóða uppá rafræna fræðslu er að gera félaginu betur kleift að halda uppi öflugri og reglubundinni fræðslu fyrir allt starfsfólk. Akademias er leiðandi í aðstoða fyrirtæki og stofnanir við að gera lærdóm og fræðslu hluta af menningu og er með stórt og fjölbreytt fræðslusafn sem þýðir að það er eitthvað fyrir alla. Þar sem um rafræn námskeið er að ræða getur starfsfólk nýtt sér hvert námskeið eins oft og þörf er á sem eykur líkur á að umfjöllunarefni fræðslu skili sér inn í starfsemina. Lögð er sérstök áhersla á að starfsmenn geti horft á rafræna fræðslu á vinnutíma. Starfsmenn fá aðgengi að rafrænni fræðslu frá Akademias í vefviðmóti frá Learncove. Aðgengi er keypt til 1 árs í upphafi og lýkur samningi í maí 2024.

Fræðslan fer fram með samsettum námskeiðum þar sem meðal annars verður lögð áhersla á starfræna færni, stjórnendafræðslu, heilsueflingu og vinnuvernd/öryggismál. Einnig verða sett í loftið stök námskeið um skjalavörslu, persónuvernd, jafnlaunavottun ofl.

Myndin sem fylgir fréttinni var tekin á fræðslu um eldvarnir sem haldin var í Stjörnugróf fyrir nokkrum misserum.

Eldri fréttir frá félaginu