Skip to main content
search
0

Afmælisárið mikla og alþjóðadagur fatlaðs fólks

Fréttamynd - DSC 5185

Í dag, 3.desember, er alþjóðadagur fatlaðs fólks. Hugmyndin á bak við daginn er að varpa ljósi á aðstæður og málefni sem snerta líf fatlaðs fólks. Af því  tilefni viljum við vekja sérstaka athygli því sem  kom fram í stefnuræðu forsætisráðherra í vikunni að á þessu þingi myndi samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verða lögfestur á Íslandi. Það er stór áfangi sem ber að fagna.

 

Árið 2021 er sérstakt í sögu Áss styrktarfélags. Í ár eru 60 ár frá formlegri opnun Lyngáss (01.júní 1961), dagheimilis fyrir fötluð börn í nýbyggðu húsi að Safamýri 5 í Reykjavík. Í dag rekur félagið leikskóladeildina Lyngás í Bjarkarási.

 

50 ár eru liðin frá opnun Bjarkaráss (18.nóvember 1971)  þá í nýbyggðu húsi að Stjörnugróf 9, sem var á þeim tíma hugsað sem næsti áfangastaður fyrir þá sem höfðu sótt þjónustu á Lyngási.  Í Bjarkarási var í byrjun lögð áhersla á vinnuþjálfun fyrir fullorðið fólk, hreyfingu, kennslu í matseld og margt fleira.

40 ár liðin frá opnun Lækjaráss (22.október 1981) í þá nýbyggðu húsi að Stjörnugróf 7. Í upphafi snerist starfsemin þar um sjúkraþjálfun og hvers kyns iðju. 

 

Síðast en ekki síst skal nefna að 40 ár eru sömuleiðis liðin frá opnun Áss vinnustofu (22.október 1981). Vinnustaðurinn var hugsaður sem brú á milli þeirrar starfsemi sem þegar var til staðar hjá Ási styrktarfélagi og hins almenna vinnumarkaðar. Í upphafi störfuðu 20 starfsmenn á Ási vinnustofu, sem var þá til húsa í Lækjarási. Tímamót urðu 1984 þegar vinnustofan flutti í betra húsnæði í Brautarholti og aftur árið 2016 þegar vinnustofan flutti í sitt núverandi umhverfi í Ögurhvarfi 6.

 

Allir þessir staðir og starfsemi þeirra hafa síðan þróast og tekið breytingum í takt við ríkjandi hugmyndfræði.

 

Árið 2021, hið mikla afmælisár, hefur litast mikið af sóttvarnarráðstöfunum vegna Covid19 heimsfaraldursins. Þær höfðu sömuleiðis áhrif á afmælishöldin en til stóð að halda stórt partý í tilefni afmælisins í nóvember sem varð því miður að fresta. Ás vinnustofa gerði það besta úr afmælisdeginum og með fréttinni má sjá myndir frá þeim hátíðarhöldum sem voru í tilefni dagsins en þar var meðal annars dansað, spilað, sungið og haldin bíósýning.