15.02.2022 Þó árið 2022 sé nýbyrjað er strax komið fram í miðjan febrúarmánuð og dagarnir farnir að lengjast. Það er alltaf nóg að gera í Vinnu og virkni og starfsmenn orðnir færir í að aðlagast allskonar breytingum og tilfæringum með mismiklum fyrirvara á þessum Covid-tímum. Fyrstu tilboðin hófust um miðjan janúar og hefur gengið ágætlega. Það er helst að veðrið trufli daglegt starf þessa dagana en stundum líka Covid þar sem smit greinast reglulega meðal starfsmanna. Hér má segja að æðruleysið ríki í daglegu starfi og tækifærin séu vel nýtt þegar þau gefast.
Bókmenntahópurinn hefur hist vikulega á fjarfundum frá 13. janúar. Það fyrirkomulag hentar vel því tilboðið er vinsælt og engar fjöldatakmarkanir á netinu. Þrír hópar hafa unnið við endurvinnslu kransa í Fossvogskirkjugarði síðustu vikurnar en tveir hópar hafa farið í Tónstofu Valgerðar. Bæði þessi tilboð hafa verið í boði í nokkur ár og eru alltaf eftirsótt svo færri komast að en vilja. Snyrting er einstaklingsmiðað tilboð sem býðst bæði í Stjörnugróf og Ögurhvarfi. Nýjasta virknitilboðið er H.A.F. jóga (e. Holistic aqua flow yoga). Það fer fram í sundlauginni í Fjölbrautaskólanum í Ármúla þar sem hægt er að njóta jógaflæðisins í hugleiðslu og fljótandi slökun. Þetta námskeið hentar flestum og bíða margir á hliðarlínunni eftir tækifærinu til að prófa HAF-jóga.
Þar sem verið er að létta á takmörkunum vegna heimsfaraldurs er stefnt að því að byrja danstíma í Kramhúsi og Plié í næstu viku. Nokkrir hópar bíða þess að allar samkomutakmarkanir falli niður. Það á til að mynda við um þá hópa sem fara víða um samfélagið eða kalla á greiðan samgang milli starfsmannahópa í Stjörnugróf og Ögurhvarfi.
Þrátt fyrir fannfergið þessa dagana styttist í vorið enda er undirbúningsvinna hafin í gróðurhúsinu í Stjörnguróf. Við horfum bjartsýn fram á batnandi tíð og blóm í haga með öllum þeim tækifærum sem bíða handan við hornið.
Meðfylgjandi fréttinni eru myndir frá H.A.F. jóga tímum