Fréttir úr gróðurhúsinu

Fréttamynd - 210114655 525973818715533 4588532520877361523 N

Starfsmenn gróðurhússins við Bjarkarás í Stjörnugróf hafa haft í nógu að snúast seinustu misserin. Þar fer fram lífræn ræktun (með vottun frá Túni) og undanfarið hefur uppskeran gefið vel af gúrkum og tómötum. Í ár ræktum við 3 tegundir af gúrkum; þær venjulegu, stuttar og snakk gúrkur sem gott er að súrsa. Við ræktum sömuleiðis 3 tegundir af tómötum; kirsuberja-, plómu- og stóra tómata. 

 

Ræktun á gulrófum, hnúðkáli, hvítkáli, vorlauki, blaðlauki, rauðrófum, gulrótum, grænkáli, fennel og sellerí fer heldur hægt af stað út af kuldatíð í byrjun sumars en ef góða veðrið heldur sér kemur þetta vonandi fljótt.  

 

Meginstarfsemi gróðurhússins er jarðvegsvinna, sáning, umpottun, vökvun, pökkun og annað tengt ræktuninni. Einnig er ýmiskonar útivinna s.s umhirða og viðhald safnhauga, gróðursetning og umhirða útigrænmetis og uppskeruvinna. Starfsemi er í gróðurhúsinu 10 mánuði ársins, aðeins er lokað yfir háveturinn.

 

Undanfarin ár hefur félagið sent vikulega grænmeti til sölu í Fjarðarkaup, Hafnarfirði, Brauðhúsið og Melabúðina í Reykjavík. Við höfum sömuleiðis selt vörur til veitingastaðarins Nauthóls í Nauthólsvík. Þetta samstarf hefur haldist sem er gott því þannig stuðla þessi fyrirtæki að því að fatlað fólk hafi næg verkefni í sinni vinnu. 

 

Við minnum að lokum á haustmarkaðinn okkar sem er stefnt að öðru hvoru megin við mánaðarmótin ágúst/september. 

 

 

 

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu.