Snorri Ásgeirsson með yfirlitssýningu í Gerðubergi

Fréttamynd - C

Snorri Ásgeirsson listamaður og starfsmaður styrktarfélagsins í rúm 30 ár verður með yfirlitssýningu í Gerðubergi dagana 13. júní til 23. ágúst. Á sýningunni má sjá úrval af verkum síðustu 10 ára en á þessu tímabili hefur list hans þróast og víkkað til muna. 

 

Myndheimur Snorra er dulur og næmur eins og hann sjálfur. Þar sjást hulduhólar þar sem fólkið býr og sólin skín en hólarnir gætu allt eins verið faratæki sem hreyfast ekki úr stað. Hús og manneskjur í yfirstærðum standa fyrir utan í hinum sýnilega heimi en oftast koma fyrir tveir menn sem reka höfuðin gjarnan á skýin á myndfletinum. Á undanförnum árum hafa birst nýir og framandi heimar í myndum Snorra, afstæðir heimar, litsterkir og dulúðlegir í senn. Það mótar fyrir móðukenndum verum á bak við litahimnuna, í sumum myndanna örlar á landslagi og náttúrusýn en í öðrum sjáum við strik einlit eða marglit fylla út allann pappírinn. Tjáningin er orðin margvíslegri og agaðri en áður.

 

Á sýningu Snorra má sömuleiðis sjá verk sem voru unni í samvinnu við Hönnu Grétu Pálsdóttur keramik hönnuð, faglegan starfsmann Smiðjunnar í Ási vinnustofu og nemanda í listkennslu við Listaháskóla Íslands. Samvinna þeirra var hluti af skólaverkefni Hönnu Grétu og eru verkin unnin úr leir. Til sýnis verða leirflísar sem hann hefur teiknað á og skreyttar leirkrúsir með hans einstöku endurteknu línum.

 

Handverk Snorra hafa nokkrum sinnum verið valin til sýninga á hátíðinni List án Landamæra. Árið 2013 sýndi hann verk sín í Listasal Mosfellsbæjar, ásamt Helga Þorgils Friðjónssyni myndlistarmanni.

 

Texti er að hluta fenginn að láni úr frétt af vef Borgarbókarsafnsins.

 

Það væri óskandi að sýningin sem opnar í Menningarmiðstöðinni í Gerðubergi verði Snorra hvatning til að halda ótrauður áfram í sinni listsköpun og við hvetjum alla til að heimsækja sýninguna og njóta. Gott aðgengi er fyrir hreyfihamlaða neðan við húsið og í því eru lyftur. Opnunartími sýningarinnar er frá 08.00-18.00 og það er frítt inn. 

 

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu.