Listamenn í Ási

Fréttamynd - 72781113 1264972140340345 2232339660464455680 O

Hjá Ási styrktarfélagi vinnur fólk með margskonar áhugamál og ástríðu. 

 

Við viljum varpa ljósi á nokkra starfsmenn sem hafa unnið að listsköpun samhliða störfum hjá félaginu en á síðasta ári voru 8 starfsmenn þátttakendur í Vinnustofu Myndlistaskóla Reykjavíkur. Vinnustofan er sérsniðin að þörfum hvers og eins. Þar er bæði hægt að vinna sjálfstætt undir handleiðslu kennara að listiðkun eða fá kennslu í tækni, efnum og aðferðum. 

 

Myndlistaskólinn er einn af samstarfsaðilum The Other Travel Agency, samnorræns verkefnis sem fjallar um stöðu jaðarhópa innan listsamfélagsins á Norðurlöndunum. Markmið verkefnisins er að skapa vettvang fyrir listamenn á jaðri samfélagsins til að vekja athygli á fjölbreytileikann í listum. 

 

Síðastliðið vor hélt Vinnustofa Myndlistaskólans samsýningu (sem hluti af dagskrá The Other Travel Agency) á 4.hæð JL-hússins sem bar heitið Hostel Takeover. Þar voru margs konar verk sýnd; málverk, teikningar, skúlptúrar, vídjóverk og gjörningur á opnun sýningarinnar. Sýningarstjórn var í höndum Margrétar M. Norðdahl, Lee Lynch og Kristins G. Harðarssonar sem jafnframt eru kennarar í Vinnustofu Myndlistaskólans. 

 

Þátttakendur í sýningunni voru 14 en þar af voru okkar fólk; Arna Ýr Jónsdóttir, Atli Már Indriðason, Glódís Erla Ólafsdóttir, Guðmundur Stefán Guðmundsson, Ingi Hrafn Stefánsson,  Lára Lilja Gunnarsdóttir, Sindri Ploder og Valdimar Leó Vesterdal.

 

Verk eins listamanns, Inga Hrafns Stefánssonar, voru valin til að vera send út á sýningarröðina í Brussel og Helsinki.

 

Ingi Hrafn sýndi 5 málverk af borgarlandslagi Reykjavíkur með Hallgrímskirkju í aðalhlutverki ásamt hljóðupptöku af kirkjuklukkum Hallgrímskirkju. Einnig voru portrett ljósmyndir af öllu listafólki Hostel Takeover sýndar sem og heimildamynd um sýninguna sem gerð var af þeim Lee Lynch og Margréti M. Norðdahl.

 

Meðfylgjandi fréttinni eru portrett myndir af listamönnunum (í stafrófsröð) og sömuleiðis myndir af verkum Inga Hrafns á sýningunum erlendis. Margrét M. Norðdahl tók myndirnar af listafólkinu. 

 

Hér er hægt að horfa á heimildarmynd Lee Lynch og Margréti M. Norðdahl sem fjallar um samsýninguna Hostel Takeover.

 

Texti umfjöllunarinnar er byggður á frétt frá Myndlistaskóla Reykjavíkur og myndir fengnar að láni frá skólanum og birtar með samþykki listamannanna. 

 

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu.