Saga úr gróðurhúsinu

Fréttamynd - Gurkur 2

Þrátt fyrir að starfsemin hjá Ási sé með öðru móti en venjulega þá eigum við von um betri tíð. Svava garðyrkjufræðingur í gróðurhúsi félagsins við Bjarkarás er á þessum skrýtnu tímum að huga að forræktun, sáningu og undirbúningi fyrir sumarið. Eitt af því sem þarf að græja eru umbúðir utan um söluvöru.

 

Undanfarin ár hefur félagið keypt poka til að pakka lífrænt ræktuðu gúrkum gróðurhússins. Pokarnir fást ekki lengur og þá eru góð ráð dýr. Svava  hringdi í hin og þessi framleiðslufyrirtæki, fann loks eitt sem gat afgreitt pokana en panta þurfti að lágmarki 40.000 stykki. Yfir sumartímann eru ræktaðar 1.500 gúrkur þannig að það tæki félagið tæplega 27 ár að klára pokana. 

 

Vongóð hélt hún áfram að leita og fór nú að hringja í garðyrkjubændur. Margir voru til í að selja okkur poka en flestir voru þeir merktir og sá hún fram á að það yrði erfitt og tímafrekt að líma yfir nöfn og strikamerki. Loks hitti hún á hjón sem reka garðyrkjustöðina Brúará, á Böðmóðsstöðum í Bláskógarbyggð sem áttu poka merktan Íslensk grúrka sem voru til í að selja einn kassa, með 4800 pokum. 

 

Daginn eftir að þau höfðu samið um kaupin hringir garðyrkjubóndinn í Svövu og lét vita að pokarnir væru komnir í póstinn, það yrði enginn reikningur sendur og hann greiddi sömuleiðis fyrir póstsendingu heim að dyrum. Þau hjónin vildi leggja góðu málefni lið, hjálpa annarri garðyrkjustöð og á þessum fordæmalausu tímum ættum við að standa saman. Þau kvöddust með óskum um góða sprettu og uppskeru í sumar. 🥒

 

Við sendum okkar bestu kveðjur í sveitina og færum kærar þakkir fyrir velvild í okkar garð.

 

Látum fylgja með myndir frá síðasta ári úr gróðurhúsinu. Að sjálfsögðu myndir af gúrkum í ræktun, góðri stemningu hjá starfsmönnum og af haustmarkaði. 

 

Um starfsemi gróðurhússins:  

Í gróðurhúsinu fer fram lífræn ræktun með vottun frá Vottunarstöðinni Tún. Þar er ræktað grænmeti og matjurtir og leitast er við að sníða vinnuaðstöðu að þörfum hvers og eins. Meginstarfsemi er jarðvegsvinna, sáning, umpottun, vökvun, pökkun og annað tengt ræktuninni. Einnig er ýmiskonar útivinna s.s umhirða og viðhald safnhauga, gróðursetning og umhirða útigrænmetis og uppskeruvinna. Starfsemi er í gróðurhúsinu 10 mánuði ársins, aðeins er lokað yfir háveturinn.

 

 

 

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu.