List án landamæra

Tíunda hátíð Listar án landamæra verður sett í Ráðhúsi Reykjavíkur 18.apríl næstkomandi. Hátíðin er fjölbreytt að vanda. Dagskrá verður í Reykjavík, Mosfellsbæ, Hafnarfirði,  Reykjanesbæ, Fellsenda í Dölum, Akranesi, Borgarnesi, Selfossi, Húsavík, Akureyri, Ísafirði, Neskaupsstað, Fáskrúðsfirði, Seyðisfirði og á Egilsstöðum. Það er sannarlega veisla í vændum!!! 

Dagskráin fer fram á allskyns vettvangi, þar á meðal er fyrrum sláturhús, strætóskýli, torg í borg sem og hefðbundnir sýningarstaðir og salir. Viðburðir eru um 70 talsins og þátttakendur eru um 800. Á döfinni eru leikrit, listsýningar, handverkssýningar og markaðir, geðveik kaffihús, ljóðalestur, gjörningar, tónleikar, söngkeppnir, kvikmyndasýningar, karaoke, skapandi þrautabrautir og óvæntir pop-up viðburðir. 

 

Listamaður hátíðarinnar 2013 er Atli Viðar Engilbertsson. Atli Viðar er sjálfmenntaður fjöllistamaður. Hann hefur skrifað ljóð, leikrit og smásögur og samið tónlist auk þess að sinna myndlist. Atli sýnir ásamt listakonunni Sigrúnu Huld Hrafnsdóttur í sal Myndlistafélagsins á Akureyri.

 

Dagskrána og frekari upplýsingar má nálgast á vefnum www.listin.is  og á www.listanlandamaera.blog.is sem og á síðu hátíðarinnar á facebook (http://www.facebook.com/listanlandamaera?ref=ts&fref=ts) og á heimasíðum ÖBÍ, Þroskahjálpar, BÍL, Átaks, Fjölmenntar og Hins hússins.

 Netfang hátíðarinnar er listanlandamaera@gmail.com og símanúmer hátíðarinnar er 691-8756.        

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu.