Vel lukkuð námsferð

Dagana 18.- 21. apríl 2007 dvaldi starfsfólk Lyngáss í Cambridge í Bretlandi í þeim tilgangi að kynna sér málefni barna með fötlun þar í landi. Starfsfólkið heimsótti hinar ýmsu stofnanir, þar á meðal listasmiðju, dagvistun, framhaldsskóla og grunnskóla.

Forstýrurnar sóttu fræðslufundi í lok hvers dags og hittu yfirmenn í félagsþjónustu og sviðsstjóra málefna barna hjá Cambridgeshire. Þeir kynntu þeim ýmis málefni er varðar þjónustuna. Sú starfssemi sem vakti mesta athygli var Castle school. Um er að ræða sérskóla fyrir fötluð börn á aldrinum 3-19 ára. Fjórir sérskólar voru sameinaðir undir einn hatt og úr urðu tveir skólar, annar þeirra er Castle school. Í honum eru 164 börn en í hinum skólanum einungis um 60 börn. Reynt var að hafa 8-9 börn í hverjum bekk en vegna mikillar ásóknar eru rúmlega 10 börn í hverjum bekk. Við skólann starfa um 100 starfsmenn sem þurftu að aðlagast breyttum vinnubrögðum við sameiningu skólanna. Innisundlaug er á staðnum og leikfimisalur sem börnin hafa aðgang að. Einnig er gríðarstór garður sem hefur að geyma hin ýmsu leiktæki og leikaðstöðu. Auk þess býðst nemendum að fara á hestbak, í róður og spila póló. Á sumrin er skólinn lokaður í 6 vikur en boðið er upp á frístundanámskeið í 4 vikur á þeim tíma. Í lok ferðar var síðan haldin árshátíð sem heppnaðist mjög vel og allir skemmtu sér hið besta.

 

 

 

 

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu.