Pizzapartí í Ási

 

Boðið í pitsupartí | Starfsmenn vinnustofunnar Ás í Brautarholti kættust vel á dögunum þegar forráðamenn BM ráðgjafar ehf. komu færandi hendi í hádeginu fyrir skömmu með pitsur og gos fyrir starfsfólkið og bréfabrotvél fyrir vinnustofuna. Gjafirnar voru þakklætisvottur fyrir vel unnin störf og ánægjulega samvinnu frá því að Ás vinnustofa hóf að pakka vörum og setja bréf í umslög til útsendingar sem BM ráðgjöf hefur milligöngu um fyrir sína samstarfsaðila.

Á Ási vinnustofu er lögð áhersla á að skapa fötluðu fólki með skerta starfsgetu vinnuaðstöðu sem sniðin er að þörfum þess og getu. Halldóra Þ. Jónsdóttir, forstöðuþroskaþjálfi vinnustofunnar, segir áherslu lagða á að efla sjálfsöryggi hvers og eins og bæta fjárhag og starfshæfni.

Starfsfólk Áss vinnur m.a. við sníðingu, saumaskap, pökkun og frágang á ýmsum gerðum heimilisklúta ásamt handklæðum, hárklæðum og bleium, auk þess að pakka og sjá um dreifingu endurskinsmerkja. Þá sér starfsfólk Áss vinnustofu um alhliða pökkunarvinnu fyrir fyrirtæki og stofnanir.

Bréfabrotvélin sem vinnustofan fékk að gjöf nú kemur að góðum notum að sögn Halldóru, en oft kemur fyrir að inn koma stór verkefni. Segir Halldóra vélina létta vel undir þessa vinnu þótt hún muni ekki leggja handavinnuna niður. Vélin getur brotið 7.500 blöð á klukkutíma.

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu.