Viðverustefna

Ási styrktarfélagi er umhugað um heilsu og velferð starfsmanna sinna og vill stuðla að heilbrigðu og jákvæðu starfsumhverfi. Það leggur áherslu á góðan aðbúnað og traust samskipti við starfsmenn.

 

Viðverustefna nær til fjarvista vegna veikinda og slysa, áfalla og brýnna fjölskylduaðstæðna. Fjarvista af persónulegum ástæðum og annarra lögmætra og ólögmætra fjarvista.

 

Tilgangur viðverustefnu er að samræma vinnuferla vegna fjarveru, að það sama eigi við um alla starfsmenn og að tekið sé á fjarvistum með sanngjörnum og samræmdum hætti. Hún nýtist vinnustaðnum til að skipuleggja viðbrögð við fjarveru.

 

Markmið með viðverustefnu er að lágmarka fjarveru frá vinnu og draga úr veikindafjarvistum með stefnu og markvissum aðgerðum sem eru samræmdar og fela í sér stuðning og jákvæð viðhorf.

Það er stefna félagsins að halda tengslum við starfsmenn í veikindum þeirra og styðja þá m.a. með upplýsingum um þau úrræði sem þeim stendur til boða. Yfirmaður hefur samband á fyrstu tveimur vikum veikinda og síðan reglulega eftir það, samkvæmt nánara samkomulagi. Farið er með heilsufarsupplýsingar sem trúnaðarmál.

 

Ólögmætar fjarvistir teljast fjarvistir sem eiga sér hvorki stoð í kjarasamningum né hafa verið veittar með leyfi yfirmanns. Mæti starfsmaður ekki til starfa án skýringa skal stjórnandi setja sig í samband við hann og gera honum grein fyrir mikilvægi þess að skýra fjarvist sína og skila inn tilskyldum gögnum. Ef starfsmaður sinnir því ekki skal líta svo á að hann hafi einhliða og á sína ábyrgð rift ráðningarsamningnum og sé hættur í vinnu hjá félaginu.

 

Framkvæmd

 

Tilkynningar um veikindi eða slys

Ef starfsmaður verður óvinnufær vegna veikinda eða slyss skal hann strax tilkynna það yfirmanni sínum sem ákveður hvort læknisvottorðs skuli krafist. Krefjast má læknisvottorðs af starfsmanni vegna veikinda eða slyss hvenær sem yfirmanni þykir þörf á.

 

Veikindi í sumarleyfi. Ef starfsmaður veikist í sumarleyfi skal hann tilkynna veikindi strax en ekki þegar hann  mætir aftur til vinnu eftir sumarleyfi. Ef ekki næst í yfirmann vegna þess má nota tölvupóst eða hafa samband við skrifstofu félagsins ella getur farið svo að veikindi fáist ekki bætt.

 

Langtíma- og skammtímafjarvistir.

Langtímafjarvistir skilgreinast sem fjarvera vegna veikinda eða slysa sem varir samfellt í 30 daga eða lengur. Allar aðrar fjarvistir vegna veikinda eða slysa teljast vera skammtímafjarvistir

 

Skammtímafjarvistir af persónulegum ástæðum

Til skammtímafjarvista af persónulegum ástæðum teljast m.a. fjarvistir vegna jarðarfara, læknisferða, foreldraviðtala, persónulegra útréttinga og þess háttar. Starfsmenn skulu sinna persónulegum erindum utan vinnutíma verði því við komið. Sé því ekki viðkomið er stefna Áss að starfsmenn geti sinnt þessum erindum eftir því sem aðstæður leyfa á vinnustaðnum. Í slíkum tilfellum skal starfsmaður undantekningarlaust fá leyfi frá yfirmanni. Félagið hefur útbúið ferli  fyrir yfirmenn sem tekur á fjarvistum vegna óvæntra atvika sem eiga við hér.

 

Fjarvera vegna brýnna fjölskylduaðstæðna er ekki kjarasamningsbundinn réttur nema þegar um er að ræða veikindi barna yngri en 12 ára. Umfang fjarvista vegna fjölskylduaðstæðna þarf að meta hverju sinni en almenna reglan er að starfsmaður haldi launum fyrst um sinn. Ef ljóst er að fjarvistir frá vinnu verði taldar í vikum skal gera skriflegt samkomulag um leyfi frá störfum. Slíkt samkomulag tekur mið af aðstæðum starfsmannsins hverju sinni. Samkomulagið getur falið í sér töku orlofs eða launalaust leyfi.

 

Tíðum fjarvistum er fylgt eftir með formlegu fjarverusamtali þar sem tilgangurinn er að draga úr fjarvistum vegna veikinda eða persónulegra aðstæðna. Enn fremur er farið yfir aðstæður á vinnustað sem geta haft áhrif á starfsgetu og leitað er leiða til að viðhalda starfsgetu starfsmannsins.

 

 

Starfsmanni sem hefur verið óvinnufær vegna veikinda eða slysa samfellt í einn mánuð eða lengur er ekki heimilt að koma til starfa að nýju nema læknir votti að heilsa hans leyfi það og þarf hann því að skila inn starfshæfisvottorði.

 

 

Áður en starfsmaður kemur aftur til starfa eftir langtíma veikindi þurfa yfirmaður og hann að eiga samtal um hvernig endurkomu skuli háttað. Farið er yfir með hvaða hætti er hægt að aðlaga starf eða vinnuumhverfi til að auðvelda starfsmanni endurkomu. Ef um er að ræða breytt vinnufyrirkomulag eða skert starfshlutfall skal gera um það skriflegt samkomulag með rétt bæði vinnuveitanda og starfsmanns í huga.

 

Þegar langvarandi veikindi leiða til skertrar starfsgetu er það stefna Áss að reyna að koma tímabundið til móts við þarfir starfsmanna þegar þeir mæta aftur til vinnu varðandi skert hlutfall á móti veikindalaunum. Að öllu jöfnu ekki lengur en í 4-6 vikur. Slíkt leyfi er þó alltaf háð aðstæðum á vinnustað og ákvörðun yfirmanns.

 

Samþykkt af stjórn 13. sept 2016

 

Smellið hér til að skoða upplýsingar um samtal vegna skammtímafjarveru.

 

Smellið hér til að skoða eyðublað fyrir fjarverusamtöl.

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu.